Elsa Guðrún Jónsdóttir mætti í jólaviðtal til okkar í desember.  Elsa Guðrún starfar sem útibússtjóri Arion banka í Fjallabyggð og er búsett í Ólafsfirði.  Elsa Guðrún er 32 ára viðskiptalögfræðingur frá Háskólanum á Bifröst, en hún er einnig með ML gráðu frá sama skóla ( 120 ECTS eininga nám í viðskiptalögfræði með 30 eininga meistararitgerð). Auk þess er hún vottaður fjármálaráðgjafi. Hún starfaði áður sem fjármálaráðgjafi hjá Arion banka í Fjallabyggð frá árinu 2015. Þar á undan starfaði hún meðal annars hjá Creditinfo.

Elsa Guðrún er einnig margfaldur Íslandsmeistari í skíðagöngu og fyrr á árinu tók hún fyrst kvenna, þátt fyrir Íslands hönd í skíðagöngu á Ólympíuleikunum.

Gönguskíði hefur verið stór hluti af lífi hennar, en Elsa byrjaði 5 ára og þá var ekki aftur snúið. Hún tók þátt á öllum göngumótum sem í boði voru.  Andrésar- og unglingameistari öll árin og í fullorðinsflokki einnig margfaldur Íslands- og bikarmeistari í skíðagöngu.  Þegar Elsa var 17 ára lék hún í meistaraflokki Leifurs/Dalvík í 1. deild kvenna B. Hún lék 10 leiki og skoraði 4 mörk.

Elsa var í landsliðinu um tvítugt og bjó þá í Noregi og reyndi við Ólympíuleikana árið 2006 en náði ekki því markmiði. Hún hélt áfram á Íslandi eftir það og var áfram ósigrandi, eignaðist börn og fór svo í háskóla og tók þá 4 ára pásu frá skíðunum. Hún ákvað svo árið 2015 að byrja æfa og leika sér á skíðum og var í framhaldinu boðið pláss í B-landsliði í skíðagöngu og tók þátt á HM í Finnlandi árið 2017, og var þar með fyrsta konan til að ná þeim árangri. Elsa sigraði þar undankeppnina og fékk þar með þátttökurétt í öllum greinum á HM. Þá komst hún upp í A landsliðið og náði sínum stærsta árangri, þegar hún komst á Ólympíuleikana í Suður-Kóreu árið 2018 og var einnig fyrsta konan til að ná því.

Jólaviðtal – Elsa Guðrún Jónsdóttir

Hvað finnst þér best við jólin?

Að njóta samverunnar með fjölskyldu og vinum

Hvað kemur þér í jólaskap?

Að baka laufabrauð með stórfjölskyldunni og hlusta á góða jólatónlist.

Hvað borðar þú á jólunum?

Það er alveg föst hefð að hafa hamborgarahrygg, brúnaðar kartöflur, gular baunir, og ekki má gleyma waldorf salatinu.

 Hvað er uppáhalds jólalagið þitt og með hvaða söngvara?

 Dansaðu vindur- Eivör

Ferðu í kirkju um jólin eða heimsækir þú kirkjugarðinn?

 Fer stundum í kirkju,en ég reyni að halda í þá hefð að fara kirkjugarðinn á aðfangadag.

Hvernig jólatré ertu með? 

Grænt gervitré

 Horfir þú á einhverja sérstaka jólamynd til að komast í jólaskap? 

Love actually og Home alone með börnunum.

 Verslar þú jólagjafir í heimabyggð, Akureyri, Reykjavík eða netinu?

 Ég nýti mér tæknina og versla mest megnis á netinu og svo á Akureyri.

 Ferðu á jólatónleika ? 

Já ég fer þetta árið á “Heima um jólin” í Hofi, er mjög spennt.

 Ferðu á brennu um áramótin?

 Yfirleitt hef ég farið, en stundum hef ég horft á hana heimanfrá mér.

 

Mynd: Úr einkasafni Elsu, aðsend.