Siglfirðingurinn Daníel Pétur Daníelsson var í jólaviðtali hjá okkur í desember. Danni er fæddur árið 1978 og er tveggja barna faðir. Hann stundar í dag nám við Háskólanum á Hólum. Hann hefur verið sýnilegur sem skemmtikraftur í Fjallabyggð undanfarinn áratug eða lengur, m.a. sungið með Tóta trúbador en þeir komu fram sem Tótmon og Danfunkel. Hann hefur einnig verið að koma fram með Sturlaugi Kristjánssyni. Hann er einnig áhugaleikari og hefur tekið þátt í uppfærslum Leikfélags Ólafsfjarðar og Leikfélags Siglufjarðar í gegnum árin. Danni hefur einnig verið öflugur í blakinu með Blakfélagi Fjallabyggðar, og verið fastamaður í liðinu undanfarin ár. Hann náði einnig að leika með meistaraflokki Knattspyrnufélags Siglufjarðar árið 2003-2004, lék 24 leiki í deild, bikar og deildarbikar og skoraði 2 mörk.

Fleiri jólaviðtöl má lesa hér á vefnum.

Jólaviðtal – Daníel Pétur Daníelsson

 

Ertu mikið jólabarn?

Ég myndi kannski ekki segja að ég væri mikið jólabarn en ég nýt vissulega jólanna og umstangsins í kringum þau. 

Skreytir þú mikið í ár?

Ég er alinn upp við að sjá ekki málningu á veggjunum eða á loftinu yfir jólin en ég er töluvert mikið hógværari í skreytingunum en mamma er hún var upp á sitt besta í jólaskreytingunum.  Ég er meira á því að “less is more” eins og þeir segja, ég skreyti auðvitað smá, aðallega fyrir strákana mína. 

 Hver er uppáhaldsjólaminning þín?

Besta jólaminningin er líklega upplifunin á jólunum er ég var yngri.  Á Þolllák var farið í sveitahangikjöt til ömmu Tóllu og afa Alla, það var besta hangikjöt sem maður hefur smakkað.  Mamma eldaði alltaf gæs á aðfangadag sem pabbi var ekki par hrifinn af, en það bjargaði jólunum að það var alltaf lambakjöt líka.  Á jóladag var fullt hús í  jólaboði hjá mömmu og pabba og áramótunum var fagnað á Lindargötunni hjá Fríðu frænku og Óla Birgis.  Þetta var yndislegur tími.

Hvað er ómissandi á jólunum?

Samvera með strákunum mínum.

 Hvert er besta jólalagið?

Þegar stórt er spurt…. Þau eru alveg nokkur sem manni finnst vera flott, bæði gömul og ný.  Held að það sé erfitt að toppa White Christmas í flutningi Bing Crosby.

Hvenær fer jólatréð upp á þínu heimili?

Það fór upp nokkrum dögum fyrir jólin þetta árið með aðstoð strákanna minna.  Annars fór allt jólaskrautið upp frekar seint þetta árið sökum anna í háskólanámi.    

Hverjir verða í „jólakúlunni“ þinni í ár?

Strákarnir mínir, Jörgen Jón og Erpur Emil, munu halda uppi stuðinu í jólakúlunni minni í ár.

Hvernig getum við haldið í gleðina þessi undarlegu jól?

Það er góð spurning.  Ætli við verðum ekki bara að reyna að halda í jákvæðnina, breyta því sem við getum breytt og sætta okkur við að við breytum ekki því sem við fáum ekki breytt.  

Hvaða jólahefð má aldrei rjúfa?

Pakkarúnturinn með strákunum mínum er ómissandi partur af aðfangadegi og má alls ekki rjúfa.

Verslar þú jólagjafir í heimabyggð, Akureyri, Reykjavík eða netinu?

Ég verslaði flestar jólagjafanna hérna í heimabyggð.  Því miður þá fær maður ekki allt í Fjallabyggð þannig að ég notaði netið til að redda því sem ekki fékkst hér.

Horfir þú á einhverja sérstaka jólamynd til að komast í jólaskap?

Í mörg ár er ég búinn að horfa á sömu jólamyndina fyrir jólin, en það er National Lampoon´s Christmas Vacation með Chevy Chase. 

 Hvað borðar þú á jólunum?

Það er voðalega misjafnt og ekki alveg komið á hreint er þetta er skrifað.  Það verður alla vegana lambalæri, það er alltaf jafn gott, og svo er það spurning um grís eða hangikjöt líka.  

Myndir úr einkasafni DPD.