Jólaviðtal – Ægir Ólafsson

Ægir Ólafsson íbúi í Ólafsfirði var í jólaviðtali hjá okkur núna í desember. Ægir er formaður Sjómannafélags Ólafsfjarðar og varaformaður Sjómannasambands Íslands. Hann starfaði sem sjómaður í 35 ár sem háseti og kokkur á frystitogaranum Sigurbjörgu ÓF-1. Þá var hann framkvæmdastjóri Knattspyrnufélagsins Leifturs. Ægir er giftur Guðnýju Ágústsdóttur. Þau hjónin eru dyggir stuðningsmenn Knattspyrnufélags Ólafsfjarðar (KF) og mæta á flesta heimaleiki liðsins.

Ægir segist vera mikill jólakarl og nýtur þess að eyða hátíðisdögunum með stórfjölskyldunni.

Fleiri jólaviðtöl við íbúa í Fjallabyggð má lesa hér á síðunni. Næstu daga birtast fleiri viðtöl við einstaklinga úr Fjallabyggð hér á síðunni.

Jólaviðtal – Ægir Ólafsson

Ertu mikið jólabarn? 

Já ég hef alltaf verið það, og ætla að vera áfram algjör jólakarl.

Hver er uppáhaldsjólaminning þín?

Ég á margar jólaminningar, bæði úr bernsku eftir að ég fór að búa og flestar snúast þær um gæðastundir með fjölskyldunni um jólin.

Hvað er ómissandi á jólunum?

Það er klárlega samvera með fjölskyldunni.

Hvað kemur þér í jólaskap?

Allt brasið fyrir jólin, að  hengja upp seríur og annað jólaskraut, pakka inn gjöfum ákveða matseðilinn og svo þegar nær dregur jólum þá er það mjög jólalegt þegar jólakveðjurnar eru lesnar upp í útvarpi allra landsmanna.

Hvaða jólalag er í uppáhaldi hjá þér?

Ó helga nótt með Agli Ólafssyni, Ef ég nenni með Helga Björns.

Hvenær fer jólatréð upp á þínu heimili?

Það er nú svolítið misjafnt, en svona viku fyrir jól er nokkuð gott.

Ferðu í kirkju um jólin eða heimsækir þú kirkjugarðinn?

Sem krakkar þá þurftum við bræður oft að fara í kirkju á jólunum, sem okkur fannst vægast sagt ekkert sérstakt, síðan þegar ég eignast mína fjölskyldu þá var það regla að ég var kokkurinn sem var heima og Guðný fór með börnin okkar í kirkju á aðfangadag, en svo er þetta að breytast aftur því Jón tengdasonur okkar sér um matinn og við hjónin förum í kirkju á aðfangadag, við förum síðan alltaf í kirkjugarðinn á aðfangadag og gamlársdag og kveikjum á kertum.

Hvaða jólahefð má aldrei rjúfa?

Þó svo að við höldum í margar góðar hefðir bæði hvað varðar mat og annað sem viðkemur jólunum þá er það mikilvægast að eiga ljúfar og skemmtilegar samverustundir með sínu fólki.

Verslar þú jólagjafir í heimabyggð, Akureyri, Reykjavík eða netinu?

Það er að breytast síðustu árin og við verslum smávegis á netinu, og aðallega á Akureyri.

Horfir þú á einhverja sérstaka jólamynd til að komast í jólaskap?

Nei enga sérstaka mynd en við horfum oft á góðar jólamyndir, hinsvegar finnst mér Enski boltinn alveg ómissandi um jólin, nokkrir góðir leikir um jól og áramót er alveg magnað.

Hvað borðar þú á jólunum?

Það er hamborgarahryggur á aðfangadag, það hefur aldrei klikkað, síðan á jóladag er jólaboð hjá fjölskyldum okkar bræðra, og þar er ýmislegt: kótilettur, hangikjöt, kjúklingur, lambalæri, og svínakjöt. Þessu fylgir síðan eitthvað ógrynni af meðlæti og sósum. Við eigum einnig eina hefð sem við höldum mikið í og það er úrbeinað lambalæri sett í net, síðan soðið í saltvatni, kælt og skorið í sneiðar eins og hangikjöt. Alltaf einhverjir sem hrista hausinn yfir þessu.

 Áramótin eru yfirleitt fjölmenn hjá okkur, fjölskyldan okkar kemur saman og því fleiri því betra, við borðum saman purusteik og kalkún með öllu tilheyrandi, það er oft mikið stuð í flugeldunum því  bæði ungir og gamlir sprengjuvargar geta stundum misst sig á þessu kvöldi. Það er líka hefð hjá okkur að fara á áramótabrennu, horfa saman á skaupið, og síðan er pakkaleikur og fjör fram eftir nóttu þetta eru gæðastundir með okkar fólki á öllum aldri.

Myndir úr einkasafni Ægis.