Jólastemning á Sauðárkróki

Í ár eru 70 ár liðin frá því að Sauðárkrókur fékk kaupstaðarréttindi. Af því tilefni býður Sveitarfélagið Skagafjörður upp á afmælisköku og kaffi í húsnæði Náttúrustofu sem áður hýsti barnaskólann, laugardaginn 2. desember, frá kl. 14:00-15:30.

Jólaljós verða tendruð á jólatrénu á Kirkjutorgi kl. 15:30 laugardaginn 2. desember. Að þessu sinni er jólatréð ræktað í heimabyggð og kemur úr skógi Skógræktarinnar í Reykjarhóli. Gróðursetning þar hófst árið 1947 eða sama ár og Sauðárkrókur fékk kaupstaðarréttindi.

Á Kirkjutorginu mun barnakór Varmahlíðarskóla syngja jólalög og Lydía Einarsdóttir syngja lagið Rúdolf með rauða nefið við undirleik Stefáns Gíslasonar. Þá mun Stefán Vagn Stefánsson, formaður byggðarráðs flytja hátíðarávarp.

Hinn landsþekkti tónlistarmaður Pálmi Gunnarsson mun syngja nokkur lög við undirleik Stefáns Gíslasonar og hljómsveitar og að því loknu munu tveir nemendur Varmahlíðarskóla tendra ljósin á trénu.