Jólaljósin tendruð á Sauðárkróki

Jólastemming verður í gamla bænum á Sauðárkróki í dag þegar jólaljósin verða tendruð á jólatrénu á Kirkjutorgi kl 15:30. Af því tilefni mun skólakór Varmahlíðarskóla syngja nokkur jólalög undir stjórn Helgu Rósar Sigfúsdóttur. Ásta Björg Pálmadóttir sveitarstjóri flytur hátíðarávarp, nemendur í 2. bekk Grunnskólans austan Vatna tendra ljósin á trénu og jólasveinarnir mæta.

Jólamarkaður verður í Safnahúsinu, opin vinnustofa í Gúttó, opið í Maddömukoti þar sem boðið verður upp á rjúkandi kjötsúpu, Fjölskyldan og frítíminn mun bjóða gestum að prófa brjóstsykursgerð í Safnaðarheimilinu og skátarnir verða með kakó og piparkökur í Landsbankanum.