Jólaljósaperum hent inn á leikskólalóð á Sauðárkróki

Leikskólabörn í leikskólanum Ársölum á Sauðárkróki hafa ekki komist út að leika í tvo daga. Þegar starfsfólk mætti til vinnu á nýju ári var stéttin við leikskólann þakin örsmáum glerbrotum. Einhver hafði tekið sig til og grýtt ljósaperum af nálægu jólatré í leikskólahúsið.

Herdís Sæmundsdóttir, fræðslustjóri í Skagafirði, segir að leikskólalóðin hafi verið þrifin í dag en erfitt sé að sópa glerbrotunum burt. Líklega þurfi að háþrýstiþvo stéttina. Það sé lán í óláni hvað veðrið sé vont því líklega hefðu börnin ekki farið út hvort eð var.

Sökudólgarnir eru komnir í leitirnar en þeir gáfu sig fram ungir piltar sem þarna voru að verki. Þeir ætla að koma í leikskólann eftir helgi og biðjast afsökunar.

Heimild: Ruv.is