Jólagleði á Ráðhústorgi á Akureyri

Laugardaginn 25. nóvember kl. 16:00,  taka Akureyringar formlega við jólatrénu sem vinabærinn Randers í Danmörku gefur þeim að venju og verður ýmislegt til gamans gert.  Lúðrasveit Akureyrar spilar jólalög og Barna- og æskulýðskór Glerárkirkju syngur með dyggri aðstoð Söngfugla Glerárkirkju og vaskra jólasveina.  Margrét Árnadóttir er kórstjóri Barna- og æskulýðskórsins og Gert-Ott Kuldpärg stýrir lúðrasveitinni.

Matthías Rögnvaldsson forseti bæjarstjórnar ávarpar gesti og Andreas Nøhr Vestergaard frá danska sendiráðinu segir nokkur orð. Að því búnu ætla systkinin Katrín Dögg Kristjánsdóttir og Unnar Daði Kristjánsson að tendra ljósin á trénu. Loks munu jólasveinarnir syngja með áhorfendum og kannski gefa börnunum eitthvert góðgæti.