Dalvík/Reynir og  Magni frá Grenivík mættust í gær í Kjarnafæðismótinu í A-deild karla í B-riðli. Magni hafði unnið Völsung en D/R var enn án sigurs. Athugli vakti að Javon Sample stóð í markinu hjá Magna í þessum leik en hann hefur verið markmaður KF síðan 2021 og framlengdi samning sinn við liðið á vormánuðum 2024 til lokárs 2025. Ekki hefur komið fram í tilkynningum frá KF eða Magna hvort hann sé laus undan samningi eða hvort félagsskipti hafi verið gerð, eða hvort hann hafi verið fenginn að láni í þessum leik.  Javon var í viðtali hér á vefnum eftir Íslandsmótið 2024.

Umfjöllun:

Magni byrjaði leikinn betur og komust fljótlega í 2-0 með mörkum frá Tómasi Arnarssyni. Birgir Ágústsson kom Magna í 3-0.
Dalvík/Reynir kom til baka og skoraði Mikael Jóhannsson og minnkaði muninn í 3-1. D/R fékk svo vítaspyrnu og úr henni skoraði Sindri Sigurðsson og var staðan orðin 3-2 og smá spenna komin aftur í leikinn. Fleiri mörk voru ekki skoruð og vann Magni leikinn 3-2.
Sævar Fylkisson sóknarmaður og Auðun Ingi Valtýsson markmaður, léku með Dalvík/Reyni í þessum leik en þeir eru nýir leikmenn. Sævar er ný kominn til liðsins frá KF.