Jarðskjálftahrinan enn yfirstandandi

Jarðskjálftahrinan er enn yfirstandandi norðaustan af Siglufirði. Þann 2. júlí kl. 19:20 varð jarðskjálfti 3,6 að stærð, 17 km NV af Gjögurtá. Tilkynningar bárust um að skjálftinn hafa fundist í Ólafsfirði og Dalvík. Þetta er stærsti skjálfti siðan 27. júni, þegar skjálfti af stærð 4,1 mældist.

Frá því að hrinan hófst 19. júní hefur sjálfvirkt jarðskjálftakerfi Veðurstofunnar staðsett tæplega 10.000 skjálfta. Þrír skjálftar yfir 5 að stærð hafa mælst í hrinunni, sá stærsti á sunnudagskvöldið kl. 19:07 af stærð 5,8 rúma 30 km NNA af Siglufirði. Aðrir skjálftar yfir 5 að stærð voru 5,6 og 5,4 að stærð og voru staðsettir rúma 20 km NA af Siglufirði.

Enn mælist mikið af minni skjálftum á svæðinu og áfram eru líkur á því að fleiri stærri skjálftar muni verða.

Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands.

Kort með staðsetningum jarðskjálfta