Annað að þeim verkefnum sem hlaut fyrstu verðlaun í nýsköpunarsamkeppninni Ræsing í Fjallabyggð var hugmynd Ármanns V. Sigurðssonar, byggingartæknifræðings, um Jarðskjálfta- og norðurljósamiðstöð á Tröllaskaga. Enskt vinnuheiti verkefnisins er Earth and sky – Auroral and Earthquake center. Verkefnið var í fyrsta sæti ásamt öðru verkefni og fékk að launum 900.000 kr. í verðlaunafé.
Earth and Sky er afþreyingar og upplifunarfyrirtæki þar sem gestum gefst kostur á að upplifa þá stóru jarðskjálfta sem orðið hafa í og við Tröllaskaga og jafnframt að upplifa fegurð norðurljósanna . Ætlunin er að kortleggja og safna heimildum um jarðskjálftana. Einnig verður búinn til jarðskjálftahermir þannig að á eftir hverri kynningu eða fræðslu verður kveikt á búnaði sem líkir eftir hverjum skjálfta með hristing og hljóði.
Eftir jarðskjálftasýninguna fara gestirnir inn í kúlulaga hvelfingu og fá fræðslu um norðurljós fræðin á bak við þau. Síðan eru ljós slökkt og kveikt á þrívíddarbíói þannig að gestirnir upplifa sig eins og hann sé þar sem upptökurnar fóru fram. Upptökurnar verða teknar á Tröllaskaga, t.d. upp á Múlakollu. Til þess að upplifunin verði enn raunverulegri þá verður köldu lofti blásið inn í salinn þannig að kaldur andvari leikur um gesti með tilheyrandi gæsahúð. Að loknum sýningum enda gestirnir í verslun þar sem hægt verður að kaupa norðurljósamyndir og ýmsan annan varning með norðurljósaþema. Ætlunin er að virkja listamenn í heimabyggð til þess að hanna vörur í verslunina.
Stórt og spennandi verkefni sem gaman verður að fylgjast með í framtíðinni.