Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Dalvík/Reynir mættust í B-deild Kjarnafæðismótsins í gærkvöldi. Þegar þessi lið mætast þá er alltaf allt lagt í sölurnar og alvöru nágrannaslagur.  Í liði KF voru nokkrir ungir menn á reynslu eins og í síðustu leikjum. Birkir Freyr Andrason er frá KA en hefur spilað með Þrótti Nes, hann var í byrjunarliðinu. Þorsteinn Már Þorvaldsson kemur frá KA, en lék sl. vor með KF, hann var í byrjunarliðinu í þessum leik. Adam Örn Guðmundsson frá Þrótti Nes var einnig í byrjunarliðinu, en hann hefur leikið með Fjarðarbyggð undanfarin ár. Á bekknum var svo Tómas Þórðarson frá KA. Allt ungir og efnilegir leikmenn sem eru á reynslu hjá KF.

Leikurinn sjálfur byrjaði fjörlega og Dalvík komst yfir eftir aðeins 7 mínútur með marki frá Daða Fannari. Aðeins 10 mínútum síðar svaraði KF og jafnaði leikinn, og var það Birkir Freyr sem átti markið. Um fimm mínútum síðar skoraði Dalvík aftur, og var það Daði Fannar með sitt annað mark, staðan orðin 1-2. KF var ekki lengi að svara, því tveimur mínútum síðar var Adam Örn búinn að jafna leikinn í 2-2 og var það einnig staðan í hálfleik. Tveir leikmenn á reynslu hjá KF með mörkin, vel gert og góð innkoma hjá þeim.

KF gerði eina skiptingu í hálfleik en Halldór Logi kom inná fyrir Þorstein Má. Liðin skiptust á að sækja í síðari hálfleik og bæði liðin gerðu margar skiptingar. Það var ekki fyrr en á 90. mínútu sem KF komst yfir með marki frá Halldóri Loga, staðan orðin 3-2 og allur viðbótartíminn eftir, sem var ansi langur.

Dalvík/Reynir jafna svo leikinn á 96. mínútu með marki frá Jóni Björgvin, og niðurstaðan var 3-3 í þessum hörku leik.

KF er nú komið með 4 stig eftir fjóra leiki, skorað 7 mörk og fengið á sig 12. KF á nú einn leik eftir gegn Þór-2, sem verður laugardaginn 2. febrúar kl. 16:15 í Boganum á Akureyri.