Íþróttamaður KA 2011 er júdókonan Helga Hansdóttir
Júdókonan Helga Hansdóttir var í gær útnefnd íþróttamaður KA árið 2011 á 84 ára afmælisdegi félagsins.
Helga er 18 ára gömul, hefur æft júdó frá 11 ára aldri og orðið Íslandsmeistari 11 sinnum. Hún sigraði á öllum júdómótum innanlands og missti ekki úr æfingu, þrátt fyrir meiðsli sem hún varð fyrir í janúar og komu í veg fyrir að hún keppti eins mikið erlendis og til stóð. Hún fékk þó bronsverðlaun á Norðurlandamót U20 ára og var valin júdókona ársins í sínum aldursflokki hjá Júdósambandi Íslands.
Aðrir sem tilnefndir voru í kjörinu voru Martha Hermannsdóttir handknattleikskona, Haukur Heiðar Hauksson knattspyrnumaður og Filip Pawel Szewczyk blakmaður.