Sundkonan Bryndís Rún Hansen var í gær kjörin íþróttamaður ársins á Akureyri árið 2011 í hófi sem fram fór á Hótel KEA. Þetta er í þriðja sinn í röð sem Bryndís verður fyrir valinu. Í öðru sæti varð handknattleikskappinn Oddur Grétarsson, leikmaður Akureyrar, og í þriðja sæti Helga Hansdóttir júdókona hjá KA.

Árangur Bryndísar á árinu 2011 var sér sérlega góður og hennar besti til þessa. Má m.a. telja fimm Íslandsmeistaratitla, fimm Íslandsmet og norskan meistaratitil, en Bryndís býr í Noregi þar sem hún keppir fyrir hönd Bergensvømmerne.

Ekki er útilokað að Bryndís vinni sér inn keppnisrétt á Ólympíuleikunum í London í sumar en helsta markmið hennar er að keppa á Ólympíuleikum í Rio De Janeiro 2016.