Íslandspósti hafnað um vörulosun úr stæði fatlaðra á Siglufirði

Íslandspóstur á Siglufirði óskaði nýlega eftir leyfi fyrir því að samnýta bílastæði fyrir fatlaða fyrir framan afgreiðslu Póstsins að Aðalgötu 34 á Siglufirði þannig að það yrði einnig ætlað til vörulosunar fyrir Póstinn. Vörulosun er tvisvar sinnum á dag í 10-15 mínútur í hvert skipti samkvæmt upplýsingum frá Íslandspósti.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar hafnaði að sjálfsögðu beiðninni um vörulosun á P-merktu stæði fyrir fatlaða.

Umferðarlögin á Íslandi eru skýr varðandi notkun þessara stæða.

Póstur hefur verið í vandamálum með að koma fyrir sendibíl í Aðalgötunni til vörulosunar eftir að fyrirtækið flutti í nýtt húsnæði. Það er þó enginn skortur á bílastæðum við Ráðhústorgið og ætti það ekki að vera vandamál að losa vörur póstsins þaðan.