Íslandsmótinu lokið hjá KF

Búið er að flauta af Íslandsmótið í 2. deild karla, sem og í öðrum deildum. Knattspyrnufélag Fjallabyggðar lýkur því mótinu í 6. sæti, eftir 20 leiki, en liðið átti aðeins tvo leiki eftir af mótinu.

KF sigraði 8 leiki, gerði tvö jafntefli og tapaði 10 leikjum, endaði með 26 stig. Leikmenn og þjálfarar geta verið sáttir með niðurstöðu mótsins, liðið átti gott mót, lék vel flesta leiki og náðu í góð úrslit. Með liðinu voru nýir erlendir leikmenn sem áttu allir gott mót.

Oumar Diouck gerði 12 mörk og var meðal markahæstu manna mótsins.  Theodore Develan Wilson gerði 9 mörk, en þessir tveir drógu vagninn varðandi markaskorun liðsins í deildinni. Ljubomir Delic átti sömuleiðis gott mót, skoraði 5 mörk í 19 leikjum. Hann var að leika sitt fimmta tímabil fyrir liðið.

Liðið náði sér í 50 gul spjöld og 3 rauð í sumar. Hinn tvítugi Sævar Þór Fylkisson lék alla leikina 20 í deildinni, og eini leikmaður liðsins sem náði því. Hann skoraði einnig 2 mörk.