Ísland U17 varð Norðurlandameistari á Þórsvelli í dag

Ísland tryggði sér í dag Norðurlandameistaratitilinn hjá U17 karla þegar þeir lögðu Dani í úrslitaleik á Þórsvelli á Akureyri í dag.  Lokatölur urðu 1 – 0 fyrir Ísland og skoraði Ævar Ingi Jóhannesson markið á 22. mínútu.  Ísland 2 lék einnig í dag við Norðmenn í leik um 3. sætið en þar höfðu Norðmenn betur, 2 – 1.  Samúel Kári Friðjónsson skoraði mark Íslands í leiknum og kom liðinu í forystu en Norðmenn svöruðu með tveimur mörkum.

Þetta er frábær árangur hjá íslensku liðunum og sannarlega eftirtektaverður.  Mótherjarnir eru sterkir en Englendingar lögðu Finna í leik um 5. sætið og Svíar höfðu betur gegn Færeyingum í leiknum um 7. sætið.