Netöryggisgeta Íslands hefur stóraukist á undanförnum árum. Þetta kemur fram í nýútgefnum netöryggisvísi Alþjóðafjarskiptasambandsins (e. Global Cybersecurity Index) fyrir árið 2024. Mæld eru fimm svið sem lúta að netöryggi ríkja og hlaut Ísland 99,1 af 100 mögulegum stigum að þessu sinni. Í síðustu úttekt, sem framkvæmd var árið 2020, hlaut Ísland 79,8 stig. Fyrir vikið er Ísland nú í hæsta flokki, svokölluðum fyrirmyndarflokki, og telst því meðal 10% bestu ríkja af þeim 194 sem úttektin tók til.
Niðurstöðurnar í ár fleyta Íslandi í 10. sæti Evrópuþjóða á sviði netöryggis en Ísland var í 31. árið 2020. Þegar horft er til allra ríkjanna 194 er Ísland í 23. sæti en var í 58. sæti árið 2020, en þá tóku aðeins 167 ríki þátt í úttektinni.
Úttekt Alþjóðafjarskiptasambandsins byggir á eftirfarandi fimm sviðum. Hér að neðan er hlutfallsleg einkunn Íslands á hverju sviði:
- Lagalegt umhverfi (e. Legal Measures) 100% (var 89% árið 2020)
- Tækni (e. Technical Measures) 100% (var 81% árið 2020)
- Skipulag (e. Organizational Measures) 97% (var 88% árið 2020)
- Hæfni (e. Capacity Development) 98,5% (var 60% árið 2020)
- Samvinna (e. Cooperative Measures) 100% (var 81% árið 2020)
Fjöldi ríkja hefur lagt aukna áherslu á netöryggi á undanförnum árum, samhliða fjölgun netglæpa og tölvuárása, og er árangur Íslands sérstaklega eftirtektarverður í því ljósi. Þar ber helst að þakka aðgerðum stjórnvalda í tengslum við aðgerðaráætlun í netöryggi sem hleypt var af stokkunum árið 2022. Aðgerðaráætlunin samanstendur af 66 fjölbreyttum aðgerðum á ábyrgð átta ráðuneyta, þar af er 22 lokið og 38 komnar vel á veg. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið fer með netöryggismál og hefur leitt vinnu í tengslum við aðgerðaráætlunina.
Aðgerðaáætlunin stefnir að tveimur meginmarkmiðum, annars vegar að hér á landi sé afburða hæfni og nýting á netöryggistækni og hins vegar að hér sé öruggt netumhverfi.
Aðgerðir sem stuðla að fyrrnefnda markmiðinu snúa m.a. að traustri netöryggismenningu og netöryggisvitund, öflugri menntun, rannsóknum og þróun, þjónustu og nýsköpun. Þá leggja aðgerðir sérstaka áherslu á netöryggisvitund og vernd barna en mikill árangur hefur náðst á því sviði á undanförnum árum sem fyrr segir.
Aðgerðir sem stuðla að markmiði um öruggt netumhverfi á Íslandi snúa að miklu leyti að öflugri löggæslu, vörnum og þjóðaröryggi ásamt skilvirkum viðbrögðum við atvikum og traustu lagaumhverfi. Til að mynda fela aðgerðir í sér greiningu og endurmat á valdheimildum stjórnvalda vegna alvarlegra netárása og hvort ákvæði almannavarnalaga þarfnist endurskoðunar með tilliti til þróunar í stafrænni tækni. Þá stendur til að endurskoða regluverk um starfsemi hýsingaraðila með staðfestu á Íslandi til að koma í veg fyrir brotastarfsemi í skjóli nafnleyndar.