Innritunum í verk- og starfsnám fjölgar um 33%

Nemendum sem innritast á verk- eða starfsnámsbrautir framhaldsskóla fjölgar umtalsvert, eða hlutfallslega um 33% frá síðasta ári. Samkvæmt upplýsingum frá Menntamálastofnun var mest ásókn í nám í rafiðngreinum, til dæmis rafeindavirkjun, rafveituvirkjun, rafvélavirkjun, rafvirkjun og hljóðtækni en einnig í málmiðngreinar svo sem blikksmíði, rennismíði, stálsmíði og vélvirkjun. Flestir nemendur innritast á bóknáms- eða listnámsbrautir til stúdentsprófs eða 69% allra þeirra sem sóttu um. Um 16% nemenda eru innritaðir á verk- eða starfsnámsbrautir en 15% nemenda á almenna námsbraut eða framhaldsskólabraut sem er lægra hlutfall en undanfarin ár.

Alls sóttu 3.930 nemendur um skólavist í framhaldsskólum fyrir haustönn 2018 sem er 95,6% allra þeirra sem útskrifuðust úr grunnskóla nú í vor. Líkt og undanfarin ár gafst nemendum kostur á að sækja um tvo skóla. Alls fengu 89% umsækjenda skólavist í þeim skóla sem þeir völdu sér í fyrsta vali, 9% nemenda fengu skólavist í þeim skóla sem þeir völdu sér í öðru vali en 2% umsækjendanna (65 nemendur) fengu ekki skólavist í þeim skólum sem þeir höfðu óskað eftir og sá Menntamálastofnun um að útvega þeim skólavist í þriðja skóla. Flestir þeir sem tilheyrðu þessum hóp uppfylltu ekki inntökuskilyrði í það nám sem þeir sóttu um. Þetta eru færri nemendur en á liðnu ári en þá voru þeir 81.

Undanfarin ár hafa nokkrir skólar notið mikilla vinsælda hjá umsækjendum og var engin breyting á því í þessari innritun. Samkeppnin um pláss var því hörð og þurftu skólar sem fengu hvað flestar umsóknir að vísa umsækjendum frá. Í ár fengu Verzlunarskóli Íslands, Menntaskólinn við Hamrahlíð og Menntaskólinn við Sund flestar umsóknir um skólavist.

Heimild: stjornarrad.is