Icelandair flýgur til Akureyrar næsta sumar

Markaðsstofa ferðamála á Norðurlandi fagnar ákvörðun Icelandair um að fljúga á milli Akureyrar og Keflavíkur í tengslum við millilandaflug allt að fjórum sinnum í viku, frá byrjun júní til loka september 2012. Gera má ráð fyrir að auk þess sem ferðamönnum fjölgar þá lengist dvalartími þeirra á Norðurlandi. Einnig bætir þetta við möguleika Norðlendinga á beinum samgöngum við útlönd. Þessi áform auka tækifæri ferðaþjónustuaðila á markaðssetningu á Norðurlandi sem áfangastað fyrir erlenda ferðamenn, auk þess sem bættar samgöngur efla og styðja við nýsköpun, þróun og uppbyggingu í ferðaþjónustu allt árið.