Íbúðalán og markmiðasetning í fjármálum – hvað þarf ég að vita?
Breki Karlsson, forstöðumaður Stofnunar um fjármálalæsi, heldur fræðslufund í Menningarhúsinu Tjarnarborg í Ólafsfirði fimmtudaginn 27. apríl kl. 17.30–19.00. Á fundinum fer Breki yfir helstu hugtök sem koma við sögu við fasteignakaup, svo sem vexti, verðbólgu og verðtryggingu, og hvaða áhrif þessir þættir hafa á íbúðarlán, greiðslugetu og eignamyndun.
Þá fer hann líka yfir leiðir til að setja sér markmið í fjármálum, hvernig hægt er að ná þeim og hvernig auka má ráðstöfunartekjur án launahækkana. Fundurinn er bæði ætlaður þeim sem hafa reynslu og þekkingu á þessum málum og hinum sem eru að stíga sín fyrstu skref og finnst fjármál jafnvel óspennandi og leiðinleg.
Sérfræðingur frá Arion banka verður til taks fyrir fundargesti, vilji þeir fá svör um sparnaðar- og lánaleiðir bankans.
Boðið upp á léttar veitingar.