Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar hefur kynnt athugasemdir íbúa í grennd við Aðalgötu 6 og 6b þar sem þeir lýsa yfir miklum áhyggjum af ástandi húsanna, Aðalgötu 6 og 6b eftir óveðrið sem gekk yfir í lok janúar.
Múrhúð hrundi af Aðalgötu 6 og þakplötur fuku af Aðalgötu 6b sem skapaði mikla hættu í nágrenninu. Íbúar hafa óskað eftir því að send verði bréf til eigenda fyrrgreindra fasteigna þar sem þeir eru hvattir til að gera nauðsynlegar úrbætur á fasteignum sínum.
Tæknideild Fjallabyggðar hefur sent eigendum Aðalgötu 6 og 6b úrbótabréf, þar sem þeim er gefinn frestur til þess að gera nauðsynlegar úrbætur á fasteignum sínum ella muni verða lagðar dagsektir á þá skv. gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.