Íbúakosningar í Fjallabyggð í dag

Íbúakosningar um Fræðslustefnu Fjallabyggðar eru í dag, laugardaginn 14. apríl. Alls eru 1596 á kjörskrá, á Siglufirði eru 955 á kjörskrá og í Ólafsfirði 641.  Áætlaður kostnaður vegna Fjallabyggðar vegna kosninganna eru um 2.000.000 króna.  Íbúakosningin verður staðarkosning í tveimur kjördeildum, Ráðhúsi Fjallabyggðar 2. hæð og Menntaskólanum á Tröllaskaga.  Hægt er að kjósa á milli kl. 10:00-20:00. Utanatkvæðagreiðslu lauk í gær.  Atkvæði verða talin að loknum kjörfundi. Þegar kjörstjórn hefur lokið talningu verður niðurstaða íbúakosningar birt á heimasíðu Fjallabyggðar.

Spurt verður:
Vilt þú að stefnan haldi gildi sínu?

Valkostir:

  • Já, ég vil að fræðslustefnan sem var samþykkt í bæjarstjórn Fjallabyggðar 18.05.2017 haldi gildi sínu.
  • Nei, ég vil að fræðslustefnan sem var samþykkt í bæjarstjórn Fjallabyggðar 18.05.2017 verði felld úr gildi og fyrri fræðslustefna frá 17.03. 2009 taki gildi á ný.

Verði ákveðið að fella úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar verður horfið aftur til fyrri fræðslustefnu og fyrra kennslufyrirkomulags. Með því eru forsendur fyrir samþættu skóla- og frístundastarfi á yngsta skólastigi brostnar og Frístund mun leggjast af. Að sama skapi verður samstarfi grunnskólans við Tónlistarskólann á Tröllaskaga, Menntaskólann á Tröllaskaga og íþróttafélög í Fjallabyggð í þeirri mynd sem verið hefur á núverandi skólaári sjálfhætt.