Bæjarstjórn Fjallabyggðar mun halda fund í Ráðhúsi Fjallabyggðar, föstudaginn 15. júlí kl. 16:00. Sjöunda málið á dagskrá á þeim fundi er ráðning bæjarstjóra Fjallabyggðar. Það má því búast við fréttatilkynning verði send út ef málið verður klárað á þeim fundi. Lítið hefur heyrst af þessari ráðningu, en önnur sveitarfélög hafa þegar gengið frá ráðningum á síðustu vikum og tilkynnt nýja bæjarstjóra og sveitarstjóra. Mikið til hefur sami hópur verið að sækja um þessar stöður. Það verður áhugavert að sjá hver verður ráðinn í Fjalllabyggð og verður þar með fimmti bæjarstjóri sveitarfélagsins frá stofnun þess árið 2006 þegar sameinað sveitarfélag var til. Elías Pétursson fráfarandi bæjarstjóri tilkynnti í vor að hann myndi ekki sækjast eftir endurráðningu.
Margir íbúar Fjallabyggðar eru að velta þessu fyrir sér og einhverjar getgátur eru uppi hver gæti verið ráðinn í starfið. Fyrrum útibússtjóri Arion banka hefur til dæmis verið í heimsókn í Fjallabyggð og kveikti það á sögu að hann gæti verið næsti maðurinn í starfið. En hver veit, við munum birta staðfestar fréttir hér þegar upplýsingar berast frá Fjallabyggð.
Engin kona hefur verið ráðin sem bæjarstjóri í Fjallabyggð nema í afleysingum, svo það er sannarlega kominn tími til að kona verði ráðin í starfið.
Bæjarstjórar Fjallabyggðar í tímaröð:
- 2006-2010 Þórir Kristinn Þórisson
- 2010-2015 Sigurður Valur Ásbjarnarson
- 2015-2019 Gunnar Ingi Birgisson
- 2020-2022 Elías Pétursson