Húsnæðisvandamál leikskólans á Varmahlíð

Leikskólastjóri Birkilundar á Varmahlíð hefur sent frá sér neyðarkall og kallar eftir aðstoð og stuðningi við að finna bráðabirgðalausn og varanlega lausn á húsnæðisvandamálum skólans. Skólinn er fullsetinn og getur hann ekki tekið á móti öllum börnum í Varmahlíð. Nú hefur bæst við að eina dagmamman á Varmahlíð hyggst láta af störfum sem skapar mikla óvissu fyrir foreldra þeirra barna og sumar fjölskyldur séu jafnvel að skoða að flytja burt frá Varmahlíð. Sex börn vantar nú leikskólapláss og þrjú til viðbótar í byrjun árs 2016.

Leikskólastjórinn segir ekkert rými á lóðinni vera til að setja niður viðbótarhús sem bráðabirgðalausn. Ef á að byggja við þá þarf að fella skóg og færa götu svo hægt sé að færa lóðarmörkin og koma viðbyggingu við. Samstarfsnefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Akrahrepps hefur haft til umfjöllunar hugmynd um að flytja leikskólann inn í húnæði Varmahlíðarskóla en sú umræða er föst inni í nefnd og hefur ekki verið rædd í skólasamfélaginu. Fólk er í verulegum vandræðum og jafnvel farið að hugsa til þess að flytja úr héraði af því það fær ekki vistun í leikskólanum

Leikskólinn var vígður 29. janúar 1999, en hann tók við af leikskólanum Hvannahlíð, sem var starfræktur frá 1982. Deildir leikskólans eru tvær; Kvistaland er fyrir 1-3 ára börn og Könglaland fyrir 4-6 ára börn. Haustið 2004 fékk leikskólinn til afnota sumarhús, Furulund 5, sem stendur við hornið á lóðinni. Hlaut það nafnið Furuland og er nýtt sem aukapláss fyrir Könglaland. Með þessu viðbótarhúsnæði geta 35 börn dvalið í leikskólanum samtímis.

birkilundur1