Þann 1. desember næstkomandi verða sjómenn búnir að vera með lausa samninga í tvö ár, kannski þykir einhverjum það bara eðlilegt og í góðu lagi, þar sem sjómannastéttin hefur látið það yfir sig ganga aftur og aftur að vera með lausa samninga, stundum svo árum skipti, sem dæmi að síðast þegar  sjómenn skrifuðu undir kjarasamning þann 18. febrúar 2017 eftir verkfall sem staðið hafði frá 14. desmber 2016, þá höfðu sjómenn verið með lausa kjarasamninga frá 1. Janúar 2011 eða í rúm sex ár, sem er í raun og veru alveg galið, og raunar alveg út úr öllum kortum að slíkt skuli fá að viðgangast í siðuðu samfélagi, sem við teljum okkur búa í, eða hvað?

Í langan tíma var það svo að þegar kjarasamningar á milli sjómanna og útgerðarmanna runnu út þá hækkuðu áfram kaupliðir samningsins, svo sem kauptrygging og fl, til jafns við hækkanir á almennum vinnumarkaði, jafnvel þó ekkert væri um það í kjarasamningi, heldur bara óformlegt samkomulag.

Það sem gerir stöðuna í dag sérstaka er að frá 1. maí 2019 hefur öllum hækkunum á kaupliðum, svo sem kauptryggingu og tímakaupi verið kippt úr sambandi. Í kjarasamningnum sem undirritaður var 2017 var ákvæði um að kauptrygging og kaupliðir ættu á árinu 2019 að hækka um það sama og um semdist á almenna vinnumarkaðnum. Þegar á reyndi neituðu útgerðarmenn að standa við þetta ákvæði samningsins, sjómannaforustan fór með málið fyrir félagsdóm þar sem það tapaðist, og sitt sýnist hverjum um rökinn sem lágu að baki þeim dómi.

Það heyrast stundum þær raddir að kauptrygging sjómanna skipti ekki neinu máli, en því er undirritaður algjörlega ósammála, kauptryggingin er til dæmis hluti af sjúkrarétti sjómanna og skiptir því miklu máli.

Og  forusta SFS (áður LÍÚ) virðist sátt við niðurstöðu félagsdóms enda þurfa þeir ekki að greiða neinar launahækkanir til sjómanna fyrr en þeim þóknast, og miða við það sem komið hefur fram á fundum hjá ríkissáttasemjara síðustu mánuði þá er alveg ljóst að SFS er ekki á því að sjómenn eigi rétt á neinum kjarabótu. Helsta baráttumálið í þessum viðræðum er lífeyrismál sjómanna þar sem við förum fram á sama mótframlag frá vinnuveitendum og því sem gildir á almennum vinnumarkaði en þar vantar okkur 3,5%, á þessari kröfu stranda raunar allar viðræður á milli aðila.

Í þættinum 200 mílur í Morgunblaðinu 23 september birtist grein þar sem formaður og framkvæmdastjóri SFS ræddu mikilvægi sjáfarútvegsins þar segir meðal annars orðrétt ,,sjáfarútvegurinn var, er og mun verða ein af grunnstoðum íslenskt efnahagslífs. Hann mun raunar verða enn sterkari ef honum er leyft að þróast á eðlilegum forsendum, segir í greininni.

Það má alveg velta því fyrir sér hvort það að láta starfsmenn sína, sjómennina, vera árum saman án kjarasamnings, sé hluti af því að sjáfarútvegurinn þróist á eðlilegum forsendum?

Sjómanna forystan var í þessum viðræðum tilbúinn að koma sem ein heild að nýjum kjarasamningi sem gilda átti í sex ár, sem er langur samningstími, en útgerðarmenn höfnuðu öllum okkar tillögum, þeir ætla ekki að samþykkja neitt sem kostar þá eitthvað. Það sem hins vegar ætti að gleðja okkur er að undanfarið hafa komið fram afkomutölur frá stórútgerðum þar sem hagnaður þeirra telur í milljörðum, vonandi verður svo áfram.

Ágætu félagsmenn í Sjómannafélagi Ólafsfjarðar, á næsta aðalfundi SÓ sem haldinn verður 29. desember næst komandi munu  þið þurfa að taka afstöðu til þess hvað þið viljið að við í sjómanna forystunni gerum, það eru þið sem ráðið mestu um það hvert við stefnum með þessa deilu.

Ægir Ólafsson

Formaður: Sjómannafélags Ólafsfjarðar.

Texti: Aðsent.