Hríseyjarkirkja 90 ára

Sunnudaginn 26. ágúst eru liðin 90 ár frá vígslu  Hríseyjarkirkju í Hrísey. Af því tilefni verður blásið til hátíðarguðþjónustu á afmælisdeginum kl. 14.00.  Jón Ármann Gíslason prófastur, sr. Hulda Hrönn Helgadóttir fyrrum sóknarprestur Hríseyjar, sr. Oddur Bjarni og sr. Magnús G. Gunnarsson sóknarprestur þjóna – og Solveig Lára Guðmundsdóttir vígslubiskup predikar. Kórinn syngur undir stjórn nýja organistans Svanbjargar Sverrisdóttur, sem við bjóðum hjartanlega velkomna.  Að guðþjónustu lokinni verður afmæliskaffi og gleði í íþróttahúsinu

Sagan

Kirkjur stóðu í Hrísey á öldum áður. Kirkjulaust var um tíma en Hríseyjarkirkja var vígð 26. ágúst  1928 og samtímis var Hrísey gerð að sérstakri sókn.  Arkitekt var Guðjón Samúelsson og smiðir Þorsteinn Þorsteinsson frá Lóni og Jón Einarsson.  Konur í kvenfélagi Hríseyjar voru frumkvöðlar að byggingu kirkjunnar.  Jón Þór Vigfússon og Vigfús Jónsson frá Akureyri máluðu kirkjuna í upphafi.
Áður en kirkja var byggð í Hrísey áttu menn kirkjusókn í Stærra-Árskógssókn, eða þar til núverandi kirkja var vígð og Hrísey gerð að sérsókn.