■ Stöðvum feluleikinn – átak UNICEF gegn ofbeldi á Íslandi í fullum gangi ■ Einar Hansberg crossfit kappi heimsækir 36 sveitarfélög landsins ■ Rær, skíðar eða hjólar fyrir hvert barn sem verður fyrir ofbeldi á Íslandi
Í dag, föstudaginn 16. ágúst, hefja UNICEF á Íslandi og crossfit kappinn Einar Hansberg Árnason hringferð gegn ofbeldi á börnum. Átak UNICEF á Íslandi gegn ofbeldi á börnum sem hófst í vor undir yfirskriftinni Stöðvum feluleikinn er enn í fullum gangi. Þá boðaði UNICEF byltingu fyrir börn, sem mun nú berast um allt land dagana 16. – 24. ágúst þegar Einar fer hringinn í kringum landið til að styðja baráttu UNICEF á Íslandi gegn ofbeldi á börnum með heldur óvenjulegum hætti. Einar, fjölskylda hans og vinir, munu stoppa í 36 sveitarfélögum á einni viku þar sem Einar ætlar að róa, skíða eða hjóla 13 þúsund metra á hverjum stað, einn fyrir hvert barn sem verður fyrir ofbeldi á Íslandi. Í heildina mun Einar því fara um 500 kílómetra.
„Einar hafði samband við okkur og vildi leggja leggja sitt af mörkum til að styðja baráttu okkar gegn ofbeldi. Við hjá UNICEF á Íslandi höfum vakið athygli á því að ofbeldi er ein helsta ógn sem steðjar að börnum á Íslandi. Þetta er ofbeldi sem hefur verið falið í samfélaginu í alltof langan tíma. Við gripum því að sjálfsögðu tækifærið til að vekja athygli á þessu alvarlega samfélagsmeini og um leið heimsækja fjölda sveitarfélaga landsins og ítreka ákall okkar. Sveitarfélögin leika mjög mikilvægt hlutverk í lífi barna, enda stýra þau stærstum hluta þeirra verkefna sem hafa bein áhrif á daglegt líf þeirra,“ segir Ingibjörg Magnúsdóttir, verkefnastjóri hjá UNICEF á Íslandi.
Markmið átaksins er að vekja athygli á því hversu alvarlegt ofbeldi gegn börnum á Íslandi er (13.000 börn á Íslandi verða fyrir ofbeldi fyrir 18 ára afmælisdaginn sinn), þrýsta á stjórnvöld að standa vaktina og búa til breiðfylkingu fólks sem heitir því að bregðast við ofbeldi gegn börnum. Nú þegar hafa yfir 11 þúsund manns skrifað undir ákall UNICEF.
„Það er svo auðvelt að horfa í hina áttina og vonast til að einhver annar taki slaginn. En það þarf ákveðið hugrekki til að rísa upp og taka slaginn sjálfur,“ segir Einar aðspurður hvers vegna hann hafi ákveðið að hefja þessa áskorun. Hann hyggst síðan enda hringferðina með því að hlaupa heilt maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu þann 24. ágúst til stuðnings UNICEF.
UNICEF skorar á sveitarfélög
Hópurinn heldur af stað frá Reykjavík þann 16. ágúst og hringferðinni lýkur í Reykjavíkurmaraþoninu þann 24. ágúst. Viðkomustaðirnir eru fjölmargir, meðal annars Hofsós, Sauðárkrókur, Siglufjörður, Akureyri, Dalvík, Húsavík, Raufarhöfn og Vestmannaeyjar. Einar og UNICEF vonast til að sem flestir mæti á staðina, kynni sér málefnið og setji nafn sitt á bakvið þessa mikilvægu baráttu. Dagskráin er hér að neðan en hún verður einnig uppfærð hér.
Samhliða hringferðinni mun UNICEF á Íslandi ítreka áskorun sína á sveitarfélög landsins að taka þátt og bregðast við ofbeldi á börnum. UNICEF hefur nú þegar sent ákall á öll sveitarfélög landsins og mun nýta slagkraftinn sem myndast með hringferðinni til að þrýsta á að öll sveitarfélög landsins setji sér skýra viðbragðsáætlun gegn ofbeldi.
Hægt er að skrifa undir ákall UNICEF hér: https://feluleikur.unicef.is/
Hægt er að heita á Einar í Reykjavíkurmaraþoninu hér. Framlögin renna í baráttu UNICEF gegn ofbeldi á börnum á Íslandi.
Dagskrá hringferðar gegn ofbeldi:
Föstudagur 16. ágúst
10:00 Akranes
14:00 Stykkishólmur
17:00 Búðardalur
22:00 Patreksfjörður – Gisting
Laugardagur 17. ágúst
10:00 Ísafjörður
12:30 Súðavík
16:30 Hólmavík
19:30 Hvammstangi – Gisting
Sunnudagur 18. ágúst
09:00 Blönduós
12:00 Sauðárkrókur
14:00 Hofsós
16:30 Siglufjörður
18:00 Dalvík
Mánudagur 19. ágúst
12:00 Akureyri
15:00 Húsavík
18:00 Þórshöfn
20:00 Vopnafjörður – Gisting
Þriðjudagur 20. ágúst
11:00 Egilsstaðir
14:30 Seyðisfjörður
16:30 Fáskrúðsfjörður
19:00 Djúpivogur
21:00 Höfn – Gisting
Miðvikudagur 21. ágúst
10:00 Vík
14:30 Vestmannaeyjar
18:30 Hella
21:00 Flúðir
Fimmtudagur 22. ágúst
10:00 Laugarvatn
12:00 Hveragerði
14:00 Stokkseyri
16:30 Þorlákshöfn
Föstudagur 23. ágúst
09:00 Grindavík
11:00 Garður
13:00 Reykjanesbær
15:00 Vogar
17:00 – 20:00
Hafnafjörður – Garðabær
Álftanes – Kópavogur
Reykjavík – Mosó
Laugardagur 24. ágúst
Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka
Viðtöl og nánari upplýsingar veitir:
Ingibjörg Magnúsdóttir, verkefnastjóri hjá UNICEF á Íslandi, s. 6184420 / ingibjorg@unicef.is
Um UNICEF:
UNICEF (Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna) hefur í tæpa sjö áratugi verið leiðandi í hjálparstarfi fyrir börn í heiminum. Við berjumst fyrir réttindum barna á heimsvísu og sinnum bæði langtímauppbyggingu og neyðaraðstoð. UNICEF treystir eingöngu á frjáls framlög og hefur að leiðarljósi þá bjargföstu trú að öll heimsins börn eigi rétt á heilsugæslu, menntun, jafnrétti og vernd. Við erum á vettvangi í yfir 190 löndum og leggjum áherslu á að ná til allra barna – hvar sem þau eru.
Fylgist með okkur á www.unicef.is og www.facebook.com/unicefisland