Hólahátíðin verður haldin um næstu helgi og þá verður meðal annars haldið upp á 250 ára afmæli Hóladómkirkju sem er elsta steinkirkja landsins.
Hólahátíð hefst föstudaginn 16. ágúst og stendur til sunnudagsins 18. ágúst.
Á hátíðinni verður opnuð sýning um kirkjubygginguna, flutt leikrit um múrarameistarann Sabinsky, gengin pílagrímaganga yfir Heljardalsheiði, messað í Gvendarskál og gengið upp í Námuna. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, prédikar í hátíðarmessu á Hólahátíð, Kristján Jóhannson syngur einsöng, Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst flytur Hólaræðuna og Hjörtur Pálsson flytur frumsamið afmælisljóð.
Hóladómkirkja er elsta steinkirkja landsins. Hún var vígð 20. nóvember árið 1763 og er því 250 ára í ár. Þessa verður minnst með veglegri dagskrá þar sem saga kirkjubyggingarinnar verður skoðuð frá ýmsum sjónarhornum.
Þorsteinn Gunnarsson arkitekt og Guðmundur Oddur Magnússon, prófessor hafa tekið saman sýningu um kirkjubygginguna. Hún verður opnuð á föstudagskvöldi. Á laugardag verður frumsýnt nýtt leikrit um Sabinsky múrarameistara sem byggði kirkjuna. Leikritið skrifaði Björg Baldursdóttir kennari við Grunnskólann á Hólum. Félagar úr Leikfélagi Hofsóss leika undir stjórn Maríu Grétu Ólafsdóttur.
Pílagrímaganga og messa í Gvendarskál
Á laugardeginum á Hólahátíð verður gengið upp í Gvendarskál þar sungin verður messa, gengið verður að námunni þar sem rauði sandsteinninn var tekinn og gengin verður pílagrímaganga yfir Heljardalsheiði. Auk þess gefst fólki kostur á að vinna með sandsteininn við Auðunarstofu undir leiðsögn Viðars Sverrissonar.
Hátíðarmessa, veislukaffi og samkoma
Hátíðamessa verður á sunnudag kl. 14:00 þar sem Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, mun predika. Í messunni mun Kristján Jóhannsson syngja einsöng. Eftir veislukaffi í Háskólanum verður samkoma í kirkjunni þar sem Kristján Jóhannsson syngur og sr. Hjörtur Pálsson flytur frumsamið afmælisljóð um kirkjuna. Ræðumaður verður Vilhjálmur Egilsson rektor Háskólans á Bifröst.
Alla helgina verður opið kaffihús í Hólaskóla og veitingastaðurinn opinn. Grill verður við Undir Byrðunni á laugardagskvöld.
Ítarleg dagskrá
Föstudagur 16. ágúst
- Kl. 17:00 Leiðsögn um kirkjuna – Þorsteinn Gunnarsson
- Kl. 18:00 Bænastund í Hóladómkirkju
- Kl. 18:30 Matur til sölu í Undir Byrðunni
- Kl. 20:00 Byggingarsaga Hóladómkirkju – Þorsteinn Gunnarsson
- Tónlistarflutningur.
Laugardagur 17. ágúst
- Kl. 06:30 Morgunverður fyrir pílagríma.
- Kl. 07:00 Lagt af stað frá Hólum í pílagrímagöngu yfir Heljardalsheiði. Lagt af stað frá Atlastöðum kl. 9:30 Leiðsögumaður sr. Guðrún Eggertsdóttir. Skráning á srgylfi@centrum.is
- Kl. 10:00 Auðunarstofa opin þar sem sýning um byggingarsöguna verður í gangi.
- Kl. 11:00 Frumsýning í kirkjunni á leikritinu : Sabinsky og kirkjubyggingin eftir Björgu Baldursdóttir
- Kl. 12:00 Hádegisverður til sölu í Undir Byrðunni
- Kl. 13:00 Lagt af stað í Gvendarskál – Leiðsögumaður Skúli Skúlason. Messa við Gvendaraltari –sr. Sigríður Gunnarsdóttir predikar – trompetleikur
- Kl. 13:00 Gengið að Námunni. Þáttakendur taka með sér sandstein.
- Kl. 13:00 Unnið með sandsteininn við Auðunarstofu – Viðar Sverrisson.
- Kl. 14:30 Kirkjan: Sabinsky og kirkjubyggingin
- Kl. 15.30 – 17:00 Kaffihús – Undir byrðunni
- Kl. 16:00 Áfram unnið við sandsteininn við Auðunarstofu
- Kl. 18:00 Móttaka pílagríma – helgistund
- Kl. 19:30 Grill við Hólaskóla – tónlist
Sunnudagur 18. ágúst
- Kl. 11.00 Sabinsky og kirkjubyggingin
- Kl. 12:00 Hádegisverður til sölu í Undir Byrðunni
- Kl. 14:00 Messa í Hóladómkirkju – Biskup Íslands predikar – trompetleikur – einsöngur Kristján Jóhannsson
- Kl. 15.00 Afmæliskaffi í Hólaskóla í boði Hólanefndar
- Kl. 16:30 Samkoma í Hóladómkirkju – ræðumaður Vilhjálmur Egilsson rektor Háskólans á Bifröst – Ljóð afmælishátíðarinnar: sr. Hjörtur Pálsson – einsöngur Kristján Jóhannsson
Heimild: www.kirkjan.is