Hólahátíð verður haldin helgina 12.-13. ágúst með fjölbreyttri dagskrá. Pílagrímaferðir verða að venju á laugardeginum. Farið verður frá Atlastöðum í Svarfaðardal yfir Heljardalsheiði til Hóla og mun sr. Þorgrímur Daníelsson leiða þá göngu. Lagt verður af stað frá Atlastöðum kl. 10.00, en boðið verður upp á bílferð frá Hólum kl. 8.00. Nánari upplýsingar og skráning í síma 893 1804, fyrir fimmtudaginn 10. ágúst. Einnig verður gengið upp í Gvendarskál og verður lagt af stað frá skólahúsinu á Hólum kl. 13.00. Karl Lúðvíksson leiðir þá göngu.
Kl. 16 á laugardeginum verður samkoma í Hóladómkirkju til að fagna endurútgáfu þriggja íslenskra sálmabóka frá 16. öld. Þetta eru handbók og sálmabók Marteins biskups Einarssonar, upphaflega prentuð 1555, sálmabók Gísla biskups Jónssonar 1558, en þeir voru báðir biskupar í Skálholti, og loks sálmabók Guðbrands biskups Þorlákssonar sem kom út á Hólum í Hjaltadal 1589. Sálmabækur Marteins og Gísla innihalda fáeina tugi sálma en í sálmabók Guðbrands eru 343 sálmar. Við 106 sálma í þeirri bók eru nótur við sálmana og er þetta fyrsta bók sem var prentuð á Íslandi og inniheldur nótur. Útgáfan var því merkur áfangi í íslenskri tónlistarsögu.
Þessar þrjár bækur eru nú gefnar út í tveimur bindum undir sameiginlega heitinu; Sálmabækur 16. aldar. Textinn er með nútímastafsetningu. Í formála er gerð grein fyrir uppruna sálma og þróun þeirra á Íslandi, svo og fylgja ítarlegar skýringar. Einnig hafa nóturnar verið aðlagaðar þeirri nótnaskrift sem nú tíðkast. Samanlagt eru bækurnar 600 blaðsíður.
Kl. 18.00 á laugardag verður helgistund í kirkjunni. Tekið á móti pílagrímum og skírnarinnar minnst og kl. 19.00 er kvöldverður á Kaffi Hólar.
Kl. 10 á sunnudeginum verður morgunsöngur í Hóladómkirkju. Kl. 14 verður svo hátíðarmessa í kirkjunni. Þar prédikar sr. Kristján Valur Ingólfsson fyrrverandi víglubiskup í Skálholti og þau sem þjóna eru: Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands, Gísli Gunnarsson, vígslubiskup á Hólum, Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti og sr. Halla Rut Stefánsdóttir. Skagfirski Kammerkórinn og kirkjukór Hóladómkirkju syngja undir stjórn Helgu Rósar Indriðadóttur. Organisti er Jóhann Bjarnason.
Veitingar verða eftir messu.
Kl. 16.10 hefst hátíðardagskrá í kirkjunni þar sem Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri flytur Hólaræðuna og Skagfirski kammerkórinn syngur undir stjórn Helgu Rósar.
Hér má lesa frekar um hátíðina á FB – síðu vígslubiskupsins á Hólum.