Sankti Pétursborgar Hátíðarballettinn og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands frumflytja Hnotubrjótinn eftir Tchaikovsky í Menningarhúsinu Hofi í kvöld, þriðjudaginn 22. nóvember, kl. 20:00. Sýningin seldist upp á augabragði enda einstakur viðburður sem Norðlendingar láta ekki fram hjá sér fara.
Jólastemningin ræður ríkjum í Hnotubrjótnum sem er einn vinsælasti ballett sögunnar. Þar leikur tónlist Tchaikovskys stórt hlutverk enda er hún ómissandi hluti af jóladagskrá margra sinfóníuhljómsveita um allan heim. Sinfóníuhljómsveit Norðurlands er það mikið gleðiefni að fá nú tækifæri til að leika verkið í heild undir stjórn rússneska hljómsveitarstjórans Sergey Fedoseev.