Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hyggst efla starfsemi sína enn frekar á landsbyggðinni með því færa verkefni á sviði brunabótamats á starfsstöð HMS á Akureyri. Fimm opinber sérfræðistörf, þar af eitt stjórnunarstarf, verða flutt til Akureyrar og nýtt teymi stofnað um verkefnin. Framvegis verður 21 stöðugildi á starfsstöð HMS á Akureyri. Breytingarnar eru hluti af endurskipulagningu eftir að verkefni tengd fasteignaskrá voru færð til HMS í fyrra. Starfsfólk sem áður sinnti þessum verkefnum er komið í önnur störf. Störfin fimm verða öll auglýst á næstu dögum.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, kynnti breytingarnar á fundi í starfsstöð HMS á Akureyri í dag. Hann sagði þær vera fullkomlega í takt við stefnu ríkisstjórnarinnar um að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni og að þær féllu einnig vel að stefnu HMS sem væri með öfluga starfsemi á nokkrum stöðum um landið.

„Við fögnum því að opinberum störfum fjölgi á landsbyggðinni. Ég hef í ráðherratíð minni beitt mér fyrir því að fólk eigi kost á að vinna fjölbreytt opinber störf um land allt, ýmist með því að efla opinberar stofnanir á landsbyggðinni, flytja sérhæfð störf eða efla tækifæri til að vinna störf án staðsetningar. Það er einnig viðvarandi verkefni að efla innviði til að fólk hafi raunverulegt val um hvar það býr og starfar. Akureyri hefur ríku svæðisbundnu hlutverki gegna sem stærsti þéttbýliskjarni á landsbyggðinni og því er ánægjuefni að fá þessi sérfræðistörf í bæinn,“ sagði Sigurður Ingi.

Góð reynsla af flutningi starfa

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem HMS flytur verkefni til á milli starfsstöðva. Árið 2020 var brunavarnasvið flutt til Sauðárkróks. Þar eru nú um 27 störf en auk brunavarna er þar unnið í þjónustuveri og við umsýslu með greiðslu húsnæðisbóta.

„Flutningur starfa hefur góða raun hjá HMS. Nú eru breyttir tímar og tæknin vinnur með okkur. Stofnunin er ekki lengur eitt hús, heldur vinnum við í mörgum teymum um land allt, á Akureyri, í Borgarnesi, Reykjavík og á Sauðárkróki,“ segir Hermann Jónasson, forstjóri HMS. „Við ætlum að festa í sessi öflugt teymi á Akureyri sem fer með ábyrgð og framkvæmd skráningar fasteigna á öllu Íslandi. Það mun sjá um brunabótamat og endurskoða framkvæmd þess allt frá lagalegri umgjörð til tæknilegrar útfærslu. Samhliða ætlum við að hefja átaksverkefni við afmörkun eigna í landeignaskrá og birta í stafrænni kortasjá HMS. Við stefnum fljótlega að því að opna vefsjá landeigna þar sem afmörkun og þinglýst eignarhald lands verður gert aðgengilegt öllum án gjaldtöku,“ sagði Hermann.

Hagræðing skapar 300 milljóna kr. fjárfestingu í grunnkerfum

Hermann minnti á að markmiðið með flutningi fasteignaskrár til HMS var að bæta þjónustu og ná fram hagræðingu með því að nýta innviði stofnunarinnar til að styðja við fleiri teymi og verkefni. Hann upplýsti að með flutningi fasteignaskrár til HMS hafi skapast rekstrarleg samlegð sem gerir HMS kleift að fjárfesta 300 millj.kr. í grunnkerfum fasteignaskrár á árinu 2023 án nýrra fjárheimilda. „Uppbygging grunnkerfa fasteignaskrár er gríðarlega mikilvæg og í samræmi við stefnu stjórnvalda um stafræna þjónustu,“ sagði hann á fundinum.

HMS er með starfsstöðvar á Akureyri, í Borgarnesi, á Sauðárkróki og í Reykjavík en stofnunin er í nánu samstarfi við sveitarfélög um allt land.