Hlynur Hallsson opnar sýninguna ALÞÝÐUSÝNING Í ALÞÝÐUHÚSINU í Kompunni í Alþýðuhúsinu á Siglufirði laugardaginn 8. mars kl. 14-17. Hlynur sýnir nokkur alþýðleg spreyverk sérstaklega gerð fyrir Alþýðuhúsið og alþjóðlegan baráttudag kvenna sem er einmitt þann 8. mars, auk bókverks sem sýningargestir geta tekið þátt í að skapa. Að þessu sinn sýnir Hlynur ný spreyverk gerð fyrir Alþýðuhúsið á Siglufirði
Hlynur Hallsson er fæddur á Akureyri 1968. Hann stundaði myndlistarnám á Akureyri, í Reykjavík, Hannover, Hamborg og í Düsseldorf. Hann hefur verið nokkuð iðinn við að setja upp sýningar og hann tók þátt í samsýningum í firstlines gallery og Halle50 í München á síðasta ári og síðasta einkasýning hans var Sýning – Ausstellung – Exhibition í Kartöflugeymslunni í Listagilinu á Akureyri. Hlynur gaf út bókina MYNDIR – BILDER – PICTURES árið 2011 með 33 ljósmynda- textaverkum. Hann hefur einnig verið sýningarstjóri fjölda sýninga eins og TEXT sem sett var upp hjá Kuckei+Kuckei í Berlín haustið 2011. Hann var einnig meðal stofnenda Verksmiðjunnar á Hjalteyri þar sem settar hafa verið upp sýningar undanfarin sex ár. Hlynur er sjálfstætt starfandi sýningarstjóri og myndlistarmaður og einnig listrænn ráðgjafi hjá Flóru á Akureyri.
Hlynur hlaut verðlaun Kunstverein Hannover 1997, verðlaun ungra myndlistarmanna í Neðra-Saxlandi 2001 og verðlaun Sparda Bank árið 2006. Hann hefur nokkrum sinnum hlotið starfslaun myndlistarmanna og var bæjarlistarmaður Akureyrar árið 2005. Hlynur vinnur með aðstæður, texta, innsetningar, ljósmyndir, gjörninga og hvað eina, allt eftir því sem hentar í hverju tilfelli.
Nánar um verkin hans hér.