Hlutu verðlaun í Atvinnu- og nýsköpunarhelginni á Akureyri

Atvinnu- og nýsköpunarhelgin fór fram á Akureyri um liðna helgi. Fjöldi fólks mætti til leiks og voru 14 hugmyndir kynntar fyrir dómnefnd. Veitt voru verðlaun fyrir fimm bestu hugmyndirnar.

Í fyrsta sæti var verkefnið TA togvélar en að því stóð Gísli Steinar Jóhannesson og hlaut hann 1.000.000 krónur í verðlaun, auk ráðgjafatíma frá KPMG. Verkefnið snýr að því að hanna tölvustýrða togvél til að draga snjóbrettafólk áfram með meiri nákvæmni og gera þannig kleift að ná mun flóknari stökkum en áður og af meira öryggi. Þannig opnast einnig möguleiki á notkun snjóbretta þar sem ekki eru skíðalyftur og ódýrari kostur á fjölbreyttari útiveru.

Önnur verðlaun hlaut verkefnið Rabarbaraverksmiðja sem er hugmynd Eddu Kamillu Örnólfsdóttur. Verkefnið hlaut 400.000 krónur í verðlaun, auk ráðgjafatíma frá KPMG. Verkefnið byggir á því að auka rabarbaraframleiðslu í landinu þannig að hægt verði að minnka innflutning á rabarbara, auk þess að hefja útflutning á íslenskum rabarbara.

Þriðju verðlaun hlaut verkefnið Speni sem er hugmynd Halldórs Karlssonar. Verkefnið hlaut 200.000 krónur í verðlaun, auk ráðgjafatíma frá KPMG. Verkefnið snýst um að aðstoða bændur við heimaframleiðslu á mjólkurafurðum með færanlegu mjólkurbúi. Verkefnið Speni hlaut jafnframt 50.000 krónur eftir kosningu þeirra sem sóttu viðburðinn, eða verðlaunin “Val fólksins”.

Þá voru veitt sérstök hvatningarverðlaun. Verkefnið Orðflokkagreiningarforrit hlaut hvatningarverðlaunin í ár að upphæð 50.000 krónur. Höfundur verkefnisins er Sigurður Friðleifsson. Forritið snýst um að gera orðflokkagreiningu meira spennandi og skemmtilegri en hún er í dag.

Dómnefnd skipuðu Jón Steindór Árnason, framkvæmdastjóri Tækifæris fjárfestingasjóðs, Soffía Gísladóttir, forsöðumaður Vinnumálastofnunar, Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, og Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, verkefnastjóri atvinnumála hjá Akureyrarbæ.

Texti: akureyri.is