Hljómsveitin Brek á Norðurlandi í júlí
Dagana 26.júní til 9.júlí mun hljómsveitin Brek vera á ferð og flugi og halda tónleika víðsvegar um landið. Samtals verða haldnir 12 opinberir tónleikar en þá er ekki allt upptalið því hljómsveitin mun einnig heimsækja dvalarheimili aldraðra á flestum viðkomustöðum. Þar mun sveitin spila fyrir heimilisfólkið og þannig færa tónlistina til þeirra sem hafa kannski ekki alltaf kost á að sækja hefðbundna tónleika. Meðlimir Brek hugsa um þetta á þann hátt að hér sé möguleiki á að vinna ákaflega þakklátt starf fyrir samfélagið.
Hljómsveitin Brek leikur aðallega frumsamda, alþýðuskotna, tónlist með áhrifum úr ýmsum áttum, en meðlimir sveitarinnar leggja mikla áherslu á að skapa áhugaverða en notalega stemningu í hljóðfæraleik sínum. Auk þess er lögð áhersla á fjölskrúðuga notkun íslenskrar tungu í textagerð.
Hljómsveitina skipa: Harpa Þorvaldsdóttir söngkona og píanóleikari, Jóhann Ingi Benediktsson gítarleikari og söngvari, Guðmundur Atli Pétursson mandólínleikari og Sigmar Þór Matthíasson kontrabassaleikari og söngvari.
Brek hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin 2022 fyrir Plötu ársins í flokki Þjóðlaga- og heimstónlistar fyrir sína fyrstu plötu sem kom út á síðasta ári. Þann 17.júní síðastliðinn sendi hljómsveitin svo frá sér nýtt lag á allar helstu streymisveitur – um er að ræða ábreiðu af laginu “Litla flugan” eftir Sigfús Halldórsson og Sigurð Elíasson. Lagið er eitt af okkar ástsælustu dægurlögum sem allir Íslendingar þekkja vel en hér tekur Brek lagið upp á sína arma og setur í nýjan búning.
Nánari upplýsingar fá finna á heimasíðu sveitarinnar: www.brek.is
Dagskrá í júlí:
3/7 EGILSSTAÐIR, Tehúsið – Teboð
5/7 KÓPASKER, Skólahúsið – Flygilvinir
6/7 SIGLUFJÖRÐUR, Bátahúsið – Þjóðlagahátíð
7/7 AKUREYRI, Græni hatturinn
8/7 DALVÍK, Menningarhúsið Berg
9/7 ÓLAFSFJÖRÐUR, Kaffi Klara