Hljómsveitin ADHD á Siglufirði

Miðvikudaginn 20. september kl. 20.00 verður hljómsveitin ADHD með tónleika í Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Hljómsveitina skipa þeir Óskar Guðjónsson, Magnús T. Eliassen, Ómar Guðjónsson og Davíð Þór Jónsson.  ADHD hefur áður spilað í Alþýðuhúsinu við mikinn fögnuð gesta og vert er að athuga að aðeins verða settir upp þrennir tónleikar um landið, svo ekki missa af þessu tækifæri.
Eins og áður verður tekið við frjálsum framlögum við innganginn, en til viðmiðunar kostar venjulega um 3500 kr. á tónleika. Ekki tekið við greiðslukortum nema til að greiða geisladiska sem verða til sölu.

Hljómsveitin ADHD var stofnuð á vormánuðum 2008 og hefur starfað nær sleitulaust síðan. Hljómsveitin hefur frá stofnun gefið sex plötur. Sú sjötta og nýjasta, ADHD6, kom út síðasta haust á geisladisk og svo var hún gefin út á vínylplötu nú í vor.
ADHD-liðar hafa verið duglegir við tónleikahald erlendis undanfarin ár en ekki eins duglegir að spila heima á Íslandi. En nú verður breyting þar á! Stefnan er tekin á Ísafjörð og spilað verður í Edinborgarhúsinu 19. september. Þaðan er stefnan tekin á Siglufjörð þann 20. september og svo haldið til Grindavíkur á Bryggjuna 21. september. Sveitin mun leika efni á síðustu plötu í bland við eldra efni á þessum tónleikum.