Hljómsveit úr Tónskóla Fjallabyggðar tekur þátt í Músíktilraunum

Í FIMMTA VELDI, hljómsveit úr Tónskóla Fjallabyggðar tekur þátt í Músíktilraunum laugardaginn 24. mars 2012. Hljómsveitina skipa þær Hulda Vilhjálmsdóttir (gítar og söngur), Snjólaug Anna Traustadóttir (bassi), Anna Lára Ólafsdóttir (gítar), Brynhildur Antonsdóttir (söngur og hljómborð) og Erla Vilhjálmsdóttir (trommur).

Músíktilraunir er tónlistarhátíð sem stendur yfir í 5 daga, undanúrslit 2012 eru 23-26. mars í Austurbæ og úrslit eru 31. mars einnig í Austurbæ. Ungmenni á aldrinum 13-25 ára geta sótt um þátttöku með því að senda inn umsókn á netinu og greiða þátttökugjald. Undankvöld fara svo fram (4 kvöld) þar sem 40 hljómsveitir keppa að því takmarki að komast áfram á úrslitakvöldið. Um 10-12 hljómsveitir fara venjulega í úrslit; fyrstu 3 sveitirnar hljóta síðan glæsileg verðlaun. Einnig eru efnilegustu og bestu hljóðfæraleikararnir valdir og vinsælasta hljómsveit meðal áhorfenda og hlustenda kosin. Undanfarin ár hefur úrslitakvöldinu verið útvarpað um land allt, auk þess sem að sjónvarpið hefur tekið það upp og sýnt síðar.

Að taka þátt í Músíktilraunum er frábær upplifun og ómetanleg reynsla fyrir upprennandi og skapandi tónlistarfólk. Hægt er að versla miða á tónleikana á www.midi.is.