Hjónin Svanfríður Halldórsdóttir og Gunnar L. Jóhannsson reka Fiskeldisstöðina Hlíð og matvælafyrirtækið Betri vörur í Ólafsfirði. Þau hafa ræktað bleikju í meira en 20 ár, alltaf á sömu kennitölunni. Þau vinna fiskinn sjálf og auka verðmætið með því að reykja og grafa. Varan fer um allt land, í verslanir, á veitingastaði og hótel.
Gunnar og Svanfríður greindu nemendum í Menntaskólanum á Tröllaskaga frá því lykillinn að velgengni lægi í vöruvöndun og einnig skipti miklu að eiga persónuleg og góð samskipti við viðskiptavinina. Þau hefðu skapað sér sérstöðu með miklum gæðum og persónulegri þjónustu.
Upphaflega frjóvguðu þau bleikjuna sjálf en kaupa nú seiði frá Hólum í Hjaltadal. Lax ala þau ekki lengur en kaupa hann frá Rifósi í Kelduhverfi. Gunnar segir að hreint vatn skipti öllu í fiskeldinu og gott fóður. Auðveldara sé að ala bleikju en lax, hann sé of stressaður. Þótt stöðin í Hlíð sé ekki stór þykir hún merkileg og þeir sem eru að læra fiskeldi á Háskólanum að Hólum í Hjaltadal og einnig í Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna sækjast eftir að skoða hana.
Heimild: mtr.is