Dalvík/Reynir og HK mættust í 16 liða úrslitum í Mjólkurbikarnum í dag, en Dalvíkingar höfðu slegið út Þórsara í 32 liða og Völsung í 2. umferðinni, frábært hjá liðinu að komast í þennan leik í dag.
HK er í 2. sæti í Lengjudeildinni og höfðu unnið síðustu fjóra deildarleiki og á mikilli siglingu og stefnir upp í efstu deild. HK sló út Gróttu í 32 liða úrslitum og Þrótt Reykjavík í 2. umferðinni í bikarnum.
Dalvík/Reynir er í 3. sæti í 3. deildinni og byrjuðu mótið geysi vel. Það var búist við nokkuð erfiðum leik fyrir liðið gegn HK en frábær reynsla fyrir yngri menn liðsins að fá slíkan leik.
D/R voru þéttir fyrir í fyrri hálfleik og lágu til baka og reyndu að beita skyndisóknum. HK fann ekki glufur á vörn D/R í fyrri hálfleik og var staðan 0-0 þegar dómarinn flautaði til leikhlés.
HKingar komu einbeittir til leiks í síðari hálfleik en þjálfarinn gerði eina skiptingu strax í hálfleik. Liðið uppskar strax tvö mörk í byrjun síðari hálfleiks, en fyrsta mark leiksins kom á 49. mínútu þegar Hassan Jalloh skoraði og aðeins þremur mínútum síðar var staðan skyndilega 2-0 þegar varamaðurinn Örvar Eggertsson skoraði.
Fljótlega eftir markið gerði þjálfari Dalvíkur tvöfalda skiptingu og kom Borja Laguna og Númi Kárason inná til að hressa uppá sóknarleikinn. Þeir náðu sér báðir í gult spjald fljótlega eftir að þeir komu inn og stimpluð sig strax inn í leikinn.
HK gerði einnig tvöfalda skiptingu á 68. mínutu þegar Stefán Ingi Sigurðarson kom inná og átti hann eftir að eiga stórleik. Ásgeir Marteinsson kom einnig inná fyrir HK en útaf fór markaskorarinn Hassan og Valgeir Valgeirsson.
HK strákarnir virkuðu mjög sprækir eftir þessar skiptingar í síðari hálfleik og skoraði Stefán á 71. mínútu, 77. mínútu, úr víti á 84. mínútu og loka markið á 89. mínútu. Ferna á 18 mínútum og þessi innkoma sökkti öllum vonum Dalvíkinga að komast inn í leikinn aftur.
Lokatölur í Kórnum voru 6-0 þar sem 278 áhorfendur fengu að sjá sex mörk á 45 mínútum í síðari hálfleik. Bikarævintýri Dalvíkur/Reynis er því lokið í ár en deildarkeppnin heldur áfram og er liðið í góðum málum og með tækifæri til að enda ofarlega í deildinni í haust.