Hjónin Elín Sigurðardóttir og Jóhannes Torfason frá bænum Torfalæk í Húnabyggð þóttu skara framúr og hlutu viðurkenninguna Landstólpinn 2023 við mikinn fögnuð á ársfundi Byggðarstofnunnar sem haldin var á Húsavík sl. föstudag.

Landstólpinn er samfélagsviðurkenning Byggðarstofnunnar en viðurkenningin eru hvatningarverðlaun til einstaklinga, fyrirtækja, hópa eða verkefna sem vakið hafa athygli á byggðarmálum. Þetta snýr m.a. að nýsköpun, byggðar- og atvinnuþróun, sjálfbærni og/eða menningarstarfsemi sem styrkir samfélög á landsbyggðinni og stuðlar að framgangi málefna landsbyggðanna bæði í heild sinni eða innan tiltekinna byggðarlaga. Byggðastofnun óskaði eftir tilnefningum frá öllu landinu í janúar 2023 og fóru sterkustu tilnefningarnar fyrir dómnefnd sem tók endanlega ákvörðun.

Viðurkenningunni fylgdi listmunur hannaður af íslenskum listamanni og í ár fylgdi í fyrsta sinn verðlaunafé viðurkenningunni að upphæð kr. 1.000.000. Hjónin sögðu við móttöku viðurkenningarinnar að þau ætluðu að gefa orgelsjóði Blönduóskirkju allt verðlaunaféið.

Hjónin hafa svo sannarlega gert mikið fyrir samfélagið á Norðurlandi vestra. Starf Elínar í uppbyggingu Heimilisiðnarsafnsins er sannkallað frumkvöðlastarf þar sem menningarsögulegur arfur svæðisins er í hávegum og safnið hefur markað sér traustan sess í safnaflóru íslenskra safna enda hefur Elín staðið þar í stafni eins og klettur. Jóhannes hefur m.a. gegnt hlutverki framkvæmdastjóra Ámundakinnar ehf. sem hefur unnið ötullega að uppbyggingu atvinnumála á Norðurlandi vestra en segja má að félagið sé byggðafestufélag sem hefur tryggt á þriðja tug fyrirtækja húsnæði ásamt því að vera beinn þátttakandi í fyrirtækjum á svæðinu.

Heimild: ssnv.is