Hippaballið á Ketilási 16. ágúst

Árið 2008 var endurvakin gömul hefð í Félagsheimilinu Ketilási í Fljótum með því að endurvekja sveitaballastemningu og halda útimarkað. Síðan 2008 hafa verið haldin árlega hippaböll í Ketilási þar sem fólk frá Ólafsfirði, Siglufirði, Sauðárkróki, Hofsósi, Fljótum og víðar hafa komið saman og skemmt sér við tónlist frá hippatímabilinu og haldið útimarkað og fleira. Mikil stemning hefur verið á þessum böllum og árið 2008 mættu rúmlega 200 manns þar sem hljómsveitin Stormar frá Siglufirði hélt uppi þéttri stemningu.

Ketilás er félagsheimili Fljótamanna, við gatnamót Lágheiðar sem liggur milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar og var aðal leiðin áður en Héðinsfjarðargöngin komu. Á árum áður spiluðu hljómsveitir á borð við Flamingo og Stormar á Hlöðudansleik og voru sætaferðir frá Dalvík, Ólafsfirði, Siglufirði og Sauðárkróki.

Í ár er svo hippaballið haldið í sjöunda skiptið og er fólk hvatt til að mæta og tjalda, taka þátt í markaði, hitta gamla vini, kynnast nýjum vinum, hlusta á góða tónlist og njóta náttúrunnar. Hljómsveitin Flower Power leikur fyrir dansi á þessum sögufræga stað en hana skipa þeir: Ingi Valur Grétarsson sem spilar á gítar og sér um sönginn, hann hefur spilað með hljómsveitum eins og Sixties og Dans á Rósum. Sigfús Óttarsson spilar á trommur, hann hefur verið í hljómsveitum eins og Baraflokkinum, Rokkabillybandinu, Stjórninni, Rikshaw og Gullfoss, Ingimundur B. Óskarsson spilar á bassa, hann hefur spilað með hjómsveitum á borð við Dúndurfréttir, Sixties, Gullfoss og Skonrokk. Hljómsveitin er sett saman fyrir þennan einstaka viðburð.

Yfir daginn er tilvalið að kíkja á markaðinn Norðurport lifandi markaður sem verður á Ketilási og þar er að finna matvörur og ýmislegt handverk ásamt fatnaði. Áður en ballið byrjar verður sungið úti friðarsöngurinn Allt sem við viljum er friður á jörð.

Takið frá laugardaginn 16. ágúst að Ketilási í Fljótum. Markaðurinn stendur frá 13-16 og ballið frá 22-02. Eigið áfengi er leyft inni á ballinu. Hægt er að kaupa miða við innganginn, fljótlegast er að hafa pening en hægt er að borga með posa líka.

Skráning á markað er í síma 618-9295 margr.tr@simnet.is.

Kíkið á Ketilás Facebooksíðuna fyrir nánari tilkynningar og myndir.

999842_546487965401013_1563404974_n 21458_545656188817524_89246068_n 16585_547260611990415_1691856652_n 1004523_549673455082464_1118653807_n