Hilmar setti Íslandsmet á alþjóðlegu kraftlyftingamóti í Reykjavík

Sunnudaginn 30. janúar síðastliðinn keppti Hilmar Símonarson frá Kraftlyftingafélagi Ólafsfjarðar Fjallabyggð fyrir hönd Íslands á alþjóðlega kraftlyftingarmótinu RIG sem haldið var í Laugardalshöllinni í Reykjavík. Það er mikill heiður að taka þátt í slíku móti og stigu á svið glæsilegt kraftlyftingar fólk og er óhætt að segja að allir stóðu sig með prýði.
Hilmar mætti vel vigtaður, 65.6kg og tilbúinn í slaginn. Hnébeygju serían var 175kg-185kg-192,5kg. Fyrstu tvær lyftunar undurléttar og greinilegt að bætingarnar lágu í loftinu og Hilmar setti nýtt Íslandsmet með síðustu hnébeygjunni, öll serían hvít og gild.
Bekkpressan gekk einnig mjög vel, serían 125kg-130g-132,5kg. Aftur voru fyrstu tvær lyfturnar hestléttar og jafnaði Hilmar sitt Íslandsmet í annari tilraun og bætingarnar inni. Hilmar keyrði upp nýtt Íslandsmet en því miður var lyftan dæmd ógild.
Þá var komið að réttstöðulyftu. Í opnunarlyftunni sem var 210kg bætti Hilmar Íslandsmetið í samanlögðu um 2,5 kg. Önnur tilraun meldaðist 217,5kg, upp fór hún með miklu harki og baráttu, 2,5kg bæting á Íslandsmeti í réttstöðu og single-lift metinu sem og 7,5 kg bæting á nýja heildarmetinu. Þar stoppaði Hilmar enda alveg búinn og lét síðustu lyftuna eiga sig.
Eftir allt lyfti Hilmar 540kg sem er 10 kg bæting og færist hann nær sínum markmiðum. Fimm Íslandsmet fóru því norður í Fjallabyggð, eitt í hnébeygju, tvö í réttstöðu og tvö í samanlögðu.
KFÓ greindi fyrst frá þessu á samfélagsmiðlum ásamt myndinni.