Hestamannafélagið Funi í Eyjafirði kærir Landssamband Hestamanna

Stjórn hestamannafélagsins Funa í Eyjafirði hyggst láta á það reyna fyrir dómstólum íþróttahreyfingarinnar hvort ákvörðun Landssambands hestamannafélaga (LH) um landsmótið 2016 standist. Formaður LH hefur ráðfært sig við lögfróða menn um þetta atriði og telur að ákvörðunin muni standast þótt hún verði kærð til dómstóls ÍSÍ.

Eyfirðingar hafa harðlega gagnrýnt ákvörðun LH um að landsmótið 2016 verði haldið á Vindheimamelum, en Gullhylur, sem rekur mótssvæðið, sótti ekki um mótið það ár. Gullhylur lagði höfuðáherslu á að fá mótið 2014 enda væri það í samræmi við hefðina að halda mótið til skiptis sunnanlands og norðanlands. Aðspurðir af stjórn LH hvort umsóknin myndi ekki gilda einnig fyrir 2016 sögðu þeir að ef reglunni yrði breytt myndi umsóknin ná til næsta móts einnig.

Stjórn Funa telur að taka þurfi ákvörðunina upp þar sem umsóknin fullnægi ekki kröfum. Lýsti hún því einnig yfir að málið yrði sent til meðferðar Íþróttasambands Íslands.

Þetta er ekki eina atriðið sem valdið hefur titringi meðal hestamanna því óánægju gætir enn norðanlands vegna þeirrar ákvörðunar að halda landsmótið á Hellu árið 2014, en það verður þá annað skiptið í röð á Suðurlandi.

Heimild: mbl.is