Hestadagar á Hofsósi

Í tilefni Hestadaga á Hofsós dagana 16. -18. ágúst ætlar Herdís á Sauðanesi bjóða áhugasömum að taka þátt. Boðið er upp á mismunandi langar ferðir að Sleitustöðum svo og að taka þátt í sameiginlegum fjölskyldu reiðtúr Hestadaga á Hófsós auk þess að ríða til baka. Herdís er með hesta við allra hæfi auk nauðsynlegs útbúnaðar s.s. hnakkatöskur. Gert er ráð fyrir að áhugasamir taki með sér nesti í ferðirnar.  Börn og fullorðnir sem áhuga hafa á skemmtilegum reiðtúrum eru hvött til að taka þátt.

Hægt er að velja um eftirfarandi ferð eða fara í allar ferðirnar:

Fimmtudaginn 15. ágúst nk. verður lagt af stað frá Sauðanesi um kl. 19 og riðið að Sólgörðum. Þangað er komið um kl. 22. Þetta er þægileg og skemmtileg reiðleið fyrir vana hestamenn en riðið er meðfram þjóðveginum inní Fljótin. Á leiðinni verða nestisstopp.  Herdís mun segja frá helstu kennileitum á leiðinni.  Gert er ráð fyrir björtu og góðu veðri á leiðinni.

Föstudaginn 16. ágúst nk. er lagt af stað um hádegi frá Sólgörðum og riðið að Sleitustöðum. Þetta er mjög þægileg reiðleið fyrir vana hestamenn. Útsýnið á leiðinni er óviðjafnanlegt en veðurspá gerir ráð fyrir björtu veðri. Nokkur nestistopp eru á leiðinni en gert er ráð fyrir að koma að Sleitustöðum milli kl. 18-19. Þar verður boðið upp á súpu og brauð.

Laugardaginn 17. ágúst nk. er sameiginlegur fjölskyldu reiðtúr inní Kolbeinsdal. Lagt er af stað kl. 13 frá Sleitustöðum og komið til baka um kl. 17.  Grillað verður um kvöldið á vegum Hestadaga. Greitt er sérstaklega fyrir grillið 4000 kr. fyrir fullorðna en frítt er fyrir fyrir börn.  Nánari upplýsingar má sjá á auglýsingu Hestadaga.

Sunnudaginn 18. ágúst nk. er riðið til baka frá Sleitustöðum inní Fjót. Sú leið er einstaklega falleg og þægileg. Gert er ráð fyrir að hún taki um 5-6 klst.

Verð fyrir hestinn í allar ferðir er 10. 000 kr. Einnig er hægt að fara í stakar ferðir og er verð þá eftir samkomulagi. Styttri ferðir eru alveg tilvaldar fyrir þá krakka sem tóku þátt í reiðnámskeiðum í sumar auk þeirra sem hafa gaman af hestum og að vera á hestbaki.

Nánari upplýsingar um ferðirnar veitir Herdís á Sauðanesi í síma 4671375 og 6986518.

Texti: Innsent efni.