Helgarviðtalið er nýr liður hér á síðunni og mun það birtast á fréttasíðunni og einnig hér: http://hedinsfjordur.is/frettir/vidtol/. Það má endilega senda ábendingar um áhugaverða viðmælendur eða gefa kost á sér. Fyrsta viðtalið er við Þórarinn Hannesson (Tóti) sem hefur verið búsettur á Siglufirði í tæp 23 ár og verið virkur í félagsmálum. Hann hefur meðal annars verið kennari, íþróttaþjálfari, listamaður og margt fleira. Þórarinn rekur nú Ljóðasetrið, kennir í Menntaskólanum á Tröllaskaga, þjálfar hjá Ungmennafélaginu Glóa, er með útvarpsþátt hjá Útvarpi Trölla og kemur reglulega fram sem tónlistarmaður. Þökkum Tóta fyrir viðtalið.
Nú hefur þú verið búsettur á Siglufirði í tæp 23 ár, hvað kom til að þú fluttist til Siglufjarðar og hvaða plön varstu með í fyrstu? Ætli megi ekki segja að það hafi verið ástin og ævintýraþráin. Ég kom hingað fyrst með þáverandi sambýliskonu minni og hafði strax mjög góða tilfinningu fyrir þessu líflega samfélagi þó sumum hafi fundist það innilokað og afskekkt. Ég er alinn upp á Bíldudal, litlu en líflegu þorpi vestur á fjörðum, og hér á Siglufirði fann ég svona eiginlega stærri útgáfu af Bíldudal; mér fannst þetta næstum því eins og að koma heim. Ég ákvað í kjölfarið að sækja hér um starf sem íþróttakennari og var ráðinn. Ég sá einnig fram á að geta sinnt hér hugðarefnum mínum á sviði tónlistar, félagsmála og íþrótta eins og raun varð á. Ég hafði reynt að búa á höfuðborgarsvæðinu en fann mig engan veginn þar. Hér fann ég vettvang þar sem mér fannst ég skipta máli og gat haft áhrif á mitt nærsamfélag.
Þú hefur mörg járn í eldinum sem listamaður, þjálfari, kennari og fleira. Hvaða starfsvettvang myndir þú kjósa ef þú værir að byrja á vinnumarkaði í dag í Fjallabyggð? Ég hef alltaf haft mikla þörf fyrir að fræða og skapa, miðla upplýsinum, taka saman upplýsingar af ýmsu tagi, segja sögur og búa til nýjar. Þannig að sá vettvangur sem ég valdi mér held ég að sé sá eini raunhæfi fyrir mig og mína sálarheill, þ.e. að vera kennari og svona „áhuga listamaður.“ En ef maður lítur raunsætt á hlutina þá er þetta kannski ekki það gáfulegasta sem maður mundi gera. Kennarastarfið er ekki beint það auðveldasta eða þakklátasta sem maður ynnir af hendi þó maður sé „alltaf í fríi“ að mati sumra. Hvað þá ef maður ætlaði sér að verða „alvöru listamaður“; Guð minn góður, og sitja undir ræðum og athugasemdum um listamannalaun og afætur samfélagsins. Maður er eiginlega búinn að fá nóg af slíkum ræðum og athugasemdum á tæplega 30 ára ferli sem kennari. Við fullorðna fólkið gætum lært margt af yngstu börnunum um það hvernig á að koma fram við hvert annað. Í stað þess að gera eins og sumir stunda að fela okkur bak við tölvuskjáina, í misjöfnu ásigkomulagi, og fella dóma um allt og alla með gífuryrðum og óhróðri. Orð skáldsins Einars Ben. „Aðgát skal höfð í nærveru sálar“ falla aldrei úr gildi.
Maður hefur svo sem nokkrum sinnum ætlað sér að hætta kennslunni og fara út í eitthvað annað. Rak t.d. söluturn og myndabandaleigu í tæp 10 ár, og minnkaði við mig kennslu einhver af þeim árum, meðan við Stína vorum að koma okkur þaki yfir höfuðið. Það hefðum við aldrei getað á kennaralaununum eins og þau voru þá en vinnudagurinn var stundum ansi langur. En „fræðarinn“ í mér hefur alltaf yfirhöndina og nú er ég svo lánsamur að kenna við Menntaskólann á Tröllaskaga þar sem fer fram afar kröftugt og gott starf. Það er gaman að fá að taka þátt í að byggja það upp og þróa í frábærum samstarfshópi og enn þann dag í dag er fátt sem toppar það að sjá blik í auga nemanda þegar hann „sér ljósið“ ,allt smellur saman og hann tekur næstu skref á vegferð sinni með nýtt nesti í pokahorninu.
Þú hefur einnig verið virkur í félagsmálunum. Er eitthvað sem stendur upp úr þar?
Ég hef alltaf átt voðalega erfitt með að segja nei, það hefur verið minn akkílesarhæll, og því hefur maður leiðst út í eitt og annað á því sviði. Sumt hefur átt vel við mann og verið gert af innri áhugahvöt annað kannski síður þó maður hafi reynt sitt besta miðað við tíma og aðstæður.
Eitt af því sem stendur upp úr er þegar við stofnuðum Umf Glóa vorið eftir að ég kom hingað á Siglufjörð. Félagið var stofnað í apríl 1994 og starfsemin hefur verið óslitin síðan og krakkar á Siglufirði og síðar Fjallabyggð hafa haft kost á að æfa ýmsar íþróttagreinar vegna þessa félagsskapar t.d. körfubolta, frjálsar íþróttir, sund, blak og fimleika. Það var öflugur hópur sem stóð að stofnuninni en síðan kvarnaðist úr hópnum og starfsemin hefur verið misjafnlega mikil eftir tímabilum en félagið lifir enn og nýjasti sprotinn í starfseminni eru fimleikaæfingar í Ólafsfirði sem hafa vakið mikla lukku. Ég hef verið formaður þessa félagskapar frá árinu 1995 og þjálfað flest árin, aðallega frjálsar íþróttir en einnig körfubolta og verið með íþróttaskóla fyrir yngstu iðkendurna.
Ég var viðloðandi bæjarpólitíkina í 16 ár og það var að mörgu leyti áhuga- og athyglisvert. Ég stýrði íþrótta- og æskulýðsnefnd eitt kjörtímabil og sat nokkra mánuði í síðustu bæjarstjórn Siglufjarðar. Ánægðastur er ég þó með störf mín á þessum vettvangi sem formaður menningarnefndar Fjallabyggðar fyrsta kjörtímabilið sem þetta sameiginlega sveitarfélag okkar var til. Ég tel að okkur sem sátum í þeirri nefnd hafi tekist að opna augu þeirra sem stýrðu sveitarfélaginu, sem og íbúanna sjálfra, fyrir mikilvægi öflugs menningarlífs í sveitarfélaginu. Á þessu kjörtímabili var ráðinn menningarfulltrúi, í fyrsta sinn var útnefndur bæjarlistamaður sveitarfélagsins, hið merka listaverkasafn okkar var metið og skráð og ýmislegt annað ávannst og var gert til að marka stefnuna í menningarmálum.
Bestu meðmælin sem ég fékk á þessum pólitískavettvangi voru ansi skemmtileg, eða ég tók þessum orðum a.m.k. sem meðmælum þó þau hafi nú líklega ekki verið meint þannig! Þetta var fyrir nokkrum árum síðan þegar æskuvinur minn og einn fyrrverandi samherji minn í pólitíkinni á Siglufirði, sem nú eru vinnufélagar, voru að ræða saman og talið barst að mér. Þá sagði þessi fyrrum samherji minn um mig: „Hann veit nú ekki einu sinni hvað pólitík er!“ Þetta þóttu mér góð meðmæli því að mínu mati hefur pólitík allt of oft gengið út á hrossakaup og leynimakk í reykfylltum bakherbergjum (svo maður grípi til kunnugs frasa). En ég er nú svo bláeygur að ég hef alltaf verið meira fyrir það að hafa hlutina upp á borðum og vinna saman að málefnum sama hvar maður stendur í pólitík.
Þú hefur komið fram sem tónlistarmaður í yfir 1000 skipti. Er eitthvað lag eða tilefni sem stendur uppúr á ferlinum? Það er nú erfitt að segja. Ég hef nú sjálfur oft átt erfitt með að kalla mig tónlistarmann enda ekki mikill hljóðfæraleikari en eitthvað get ég raulað. Ég fell kannski frekar í flokkinn hljóðfæraeigandi frekar en hljóðfæraleikari og hef komist ótrúlega upp með það að glamra þessi 10 – 20 vinnukonugrip á gítarinn í gegnum tíðina við hin ýmsu tilefni. En einhverra hluta vegna var mér gefið það að geta sett saman lög og texta. Það er einhver innri þrá sem rekur mann áfram, ég veit ekkert hvernig á því stendur. Þetta er eitthvað sem ég geri fyrst og fremst fyrir sjálfan mig; þetta er svona mín sáluhjálp. Ef aðrir njóta þess með mér er það að sjálfsögðu stór plús. Svo hef ég líka afskaplega gaman af því að koma fram, sumir kalla það athyglissýki, en er kannski minna fyrir það að æfa of mikið! Þetta eru líklega áhrif frá því sem ég ólst upp við þ.s. pabbi var alltaf að leika með leikfélaginu fyrir vestan og við krakkarnir fylgdumst spennt með hvernig verkið tók á sig mynd á æfingum og mættum svo á eins margar sýningar og við gátum. Þetta drakk maður í sig og býr að því.
En hvað stendur upp úr, það er nú það. Þessi ferill , sem telur nú orðið tæp 40 ár, skiptist nú í nokkuð mörg tímabil. Fyrstu skrefin eru að sjálfsögðu eftirminnileg, þegar við þrír bekkjarbræður á 14. ári stofnuðum hljómsveitina Brest og lékum á skóladansleikjum og við önnur tækifæri á Bíldudal árin 1978 -´79. Þá lék ég á trommur og söng. Trommusettið keypti ég fyrir fermingarpeningana. Hljómsveitin Græni bíllinn hans Garðars var stofnuð nokkrum árum síðar fyrir vestan og við lékum á sveitaböllum, þorrablótum og slíku vítt og breitt um Vestfirðina í nokkur ár. Þar urðu nú margar ferðirnar sögulegar enda hef ég tekið sögu þeirrar hljómsveitar saman í lítið rit og gefið út. Fyrir vestan voru einnig mjög eftirminnileg hin svokölluðu Vísnakvöld þar sem listamenn úr þorpinu tróðu upp, gjarnan með eigið efni. Fyrstu lögin mín samdi ég fyrir þessa viðburði.
Fyrsta platan sem ég tók upp og gaf út er að sjálfsögðu eitt af því sem stendur upp úr, það var árið 2001. Áratuginn þar á undan hafði ég verið að syngja með hljómsveitum og troða upp á pöbbum fyrir vestan og á Siglufirði auk þess að semja töluvert af lögum. En var orðinn leiður á þessu brölti og ætlaði að láta þetta gott heita. Svo fannst mér ég ekki geta hætt án þess að koma einhverjum af þessum lögum á fast form og fékk Elías Þorvaldsson á Siglufirði í lið með mér að taka upp. Við tókum plötuna upp í tónskólanum á Siglufirði og fengum gott heimafólk í lið með okkur. Útkoman varð lágstemmd og ljúf plata með 12 lögum sem fór svo sem ekki hátt, hvorki hvað varðar umfjöllun eða útvarpsspilun, en hefur lifað góðu lífi síðan og selst í tæplega 1000 eintökum. Arnar Eggert Thoroddsen, tónlistargagnrýnandi á Morgunblaðinu fór mjög svo lofsamlegum orðum um gripinn. Hann skrifaði m.a.: „Alþýðulist í sinni tærustu mynd; skapað til að skapa, af náttúrulegri þörf.“ Og síðar í sömu umfjöllun: „Sum laganna hér ná því að vera frábær ..“ og „Þetta er ein heiðarlegasta plata sem ég hef heyrt á árinu og hún er skýrt dæmi um eitthvað sem varð að gefa út“. Eftir þennan dóm gat maður nú bara eiginlega ekki hætt – enda þörfin alltaf til staðar.
Á síðustu árum er það samstarf okkar í sönghópnum Gómum sem m.a. stendur upp úr. Við höfum komið fram um 80 sinnum frá árinu 2009 oft á tíðum með landsþekktum söngvurum s.s. Ragga Bjarna, Helenu Eyjólfs, Gylfa Ægis, Ómari Ragnars, Bogomil Font o.fl. bæði hér fyrir norðan sem og fyrir sunnan. Þetta hafa verið frábærar skemmtanir og hópurinn góður undir öruggri stjórn Sturlaugs Kristjánssonar.
Svo má ekki gleyma hinu merka arfi okkar, þjóðlögunum. En ég hef starfað með tveimur kvæðamannafélögum hér í Fjallabyggð sem báðir hafa unnið að því að viðhalda þessum merka arfi okkar og kynna hann fyrir heiminum. Svo tók ég upp á því að semja sjálfur lög í þessum anda og kveða inn á plötu. Er það víst í fyrsta sinn sem það er gert á landinu okkar góða, þ.e. að gefin er út plata sem inniheldur einungis frumsamin kvæðalög. Hinn þekkti kvæðamaður Steindór Andersen var ánægður með gripinn og sagði m.a. „Það sem þarna er að finna er það eina sem ég hef heyrt í langan tíma og stendur undir nafni sem frumsamin kvæðalög. Stemmur Þórarins eru hlýlegar eins og hún Sigþrúður amma mín.“
Þú hefur gefið út nokkrar ljóðabækur og gamansögur. Er eitthvað ljóð í uppáhaldi hjá þér eftir þig sjálfan? Ekki get ég nú sagt það. Hver bók hefur svona sinn sjarma, eða sitt sérkenni. Í fyrstu tveimur bókum mínum er ég að gera upp æskuárin fyrir vestan. Reyni að varpa upp myndum af því sem við krakkarnir vorum að fást við. Þetta eru einfaldar myndir sem eiga að höfða til ungdómsins og kannski þeirra eldri líka því það hefur komið í ljós að við lestur bókanna hafa margir fullorðnir fundið aftur barnið í sér. Margt af því sem ég segi frá er nefnilega sameiginleg reynsla fólks á miðjum aldri hvar sem það ólst upp á landinu. Hef ég gert töluvert af því að lesa úr þessum bókum fyrir nemendur í grunnskólum og fengið skemmtileg viðbrögð. Þriðja bókin mín, Nýr dagur, er svona meira á persónulegum nótum þó umfjöllunarefnin séu almenn s.s. ástin, börnin og náttúran. Fjórða bókin er svo ljóðakver um jólin og ýmislegt sem þeim tengist. Í því kveri yrki ég eingöngu hefðbundið og var mjög gaman að takast á við ýmsa bragarhætti í þeirri glímu.
Hvað viðkemur gamansögunum þá tók ég að punkta hjá mér skemmtilegar sögur sem ég heyrði fljótlega eftir að ég flutti hingað á Siglufjörð. Það var svo árið 2009 að byrjaði að gefa út rit með þessum sögum, 50 sögur í hverju riti. Nú hafa komið út fjögur rit og það fimmta mun koma út seinna á þessu ári. Ég veit að það eru margir sem bíða spenntir eftir því.
Hvaða tækifæri eru nú fyrir ungt fólk í Fjallabyggð sem voru ekki fyrir 20 árum síðan?
Það er ótrúlega margt sem hefur breyst í atvinnulífinu hér síðan ég kom hingað fyrst. Munar þar mestu um að vinnsla uppsjávarfisks fer ekki fram hér lengur, en hjá Síldarverksmiðjum Ríkisins á Siglufirði höfðu örugglega hátt í 100 manns atvinnu og svo voru hér starfandi tvær öflugar rækjuverksmiðjur þar sem fólk vann á vöktum meira og minna alla sólarhringinn. Fjöldamörg störf hurfu á braut beint og óbeint þegar þessar verksmiðjur lokuðu. Fólksfækkunin undanfarna áratugi hefur líka haft sín áhrif á ýmsa þjónustu sem og störfin sem ríkið hefur lagt af á landsbyggðinni.
En ég held að það sé mjög spennandi fyrir ungt fólk að flytja til Fjallabyggðar í dag því hér eru mörg tækifæri t.d. á sviði ferðaþjónustu og nýsköpunar. Mesta breytingin er sennilega sú að í dag höfum við fleiri störf sem krefjast meiri menntunnar sem þýðir það að unga fókið getur komið aftur heim eftir að það hefur sótt sér menntun, það er afskaplega mikilvægt. Hér er mikil uppbygging og mikill kraftur að ekki sé nú talað um hið fjölskylduvæna umhverfi og öfluga menningarlíf sem hér er.
Bættar samgöngur hafa einnig sitt að segja í atvinnumálum, atvinnusvæðið hefur stækkað og með því bjóðast einnig fleiri og fjölbreyttari störf.
Þú stofnaðir Ljóðasetrið fyrir tæpum 5 árum síðan, gestir hafa flestir verið 1300 á ári. Hvað áttir þú von á miklum fjölda gesta í upphafi?
Ég renndi náttúrulega blint í sjóinn með þessa hugmynd eins og svo margar aðrar sem maður hefur farið út í. Mér fannst þó hugmyndin nógu klikkuð til að hún gæti gengið og þætti eftirtektarverð og Ljóðasetrið hefur sannarlega vakið athygli. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það hefur verið góð auglýsing fyrir Fjallabyggð og það öfluga menningarlíf sem hér þrífst. Á hverju ári fæ ég þó nokkra gesti á setrið sem segjast hafa komið sérstaklega til Siglufjarðar til að heimsækja Ljóðasetrið og þeir fjölmörgu listamenn sem komið hafa þar fram eru afskaplega ánægðir með framtakið. Tala þeir hlýlega um Ljóðasetrið á ýmsum vígstöðum og við ýmis tækifæri, á því hef ég fengið staðfestingu oftar en einu sinni og oftar en tvisvar.
Það er þó svo margt sem maður vildi gera betur og gera meira af á Ljóðasetrinu en þar sem þetta er allt unnið í sjálfboðavinnu, og borgað með því reyndar, þá verður saltið í grautinn víst að hafa forgang. Það væri gaman að geta verið með lengri opnun yfir árið, fá fleiri listamenn í heimsókn, bjóða upp á fleiri stóra viðburði og meiri fræðslu auk þess sem nauðsynlegt er að mæta hinum síaukna straumi erlendra ferðamanna sem margir hverjir eru mjög áhugasamir um íslenskan kveðskap. Að ég tali nú ekki um að geta dyttað almennilega að húsinu svo það sómi sér nú þokkalega í götumyndinni þó það halli svona skemmtilega.
Þann 8. júlí nk. verða fimm ár frá því að frú Vigdís Finnbogadóttir lýsti Ljóðasetrið formlega opið og það voru kannski ekki margir sem höfðu trú á því að það myndi tóra svo lengi. En það er enn við lýði og hefur held ég sannað sig og markað sér sess í menningarlífinu hér í Fjallabyggð. Hvað framtíðin ber í skauti sér er ómögulegt að segja en undanfarið ár hef ég fundið jákvæðari strauma í garð setursins en áður og er fullur bjartsýni um að erfiðasti hjallinn sé að baki. Vonast ég til þess að hægt verði að bæta í starfsemina frekar en hitt á komandi árum.
Á þessum nærri 5 árum sem Ljóðasetrið hefur starfað höfum við fengið tæplega 7000 gesti inn um dyrnar, verið með um 150 stóra sem smáa viðburði og yfir 50 listamenn hafa komið fram í setrinu; ljóðskáld, tónlistarmenn, leikarar, rithöfundar, kvæðamenn o.fl. Setrið hefur verið góður vettvangur fyrir heimamenn til að láta ljós sitt skína sem og til að kynna ýmsa af listamönnum landsins fyrir heimafólki og gestum í Fjallabyggð.
Mig langar að nota tækifærið og benda áhugasömum á að hægt er að gerast „Vinur ljóðsins“ og greiða 3.000 kr. árgjald sem fer til reksturs Ljóðasetursins. Sem stendur eru um 30 manns í þessum félagsskap og fer fjölgandi. Hafið samband í gegnum fésbókina ef áhugi er fyrir hendi.
Hvað ætlar þú að gera á árinu 2016 ?
Það er svo margt sem mann langar til að gera! Spurning hvað maður kemst yfir mikið og hvernig á að forgangsraða verkefnunum. Fyrst og fremst er það nú að standa sig í vinnunni og hjálpa til við að gera góðan skóla enn betri. Menntaskólinn á Tröllaskaga er samfélaginu okkar svo geysilega mikilvægur að við þurfum að leita allra ráða til að byggja hann áfram upp og efla. Það er sótt að skólanum úr hörðustu átt, eins og við höfum orðið vör við. Við íbúarnir þurfum að standa vörð um hann og við starfsfólkið þurfum að vanda okkur sérstaklega vel í okkar vinnu til að halda þessu fjöreggi okkar frjóu og lifandi.
Svo er það að sjálfsögðu að njóta samvista með fjölskyldunni, það hefur stundum viljað gleymast í öllum þessum verkefnum sem maður hefur hlaðið á sig í gegnum tíðina. Við stefnum erlendis í sólina í sumarbyrjun, líkt og undanfarin ár, að hlaða batteríin áður en Ljóðasetrið opnar auk þess sem við ætlum að sjálfsögðu að njóta lífsins hér heima. Fjórða barnabarnið kemur líka í heiminn í mars úti í Danmörku, vonandi kemst maður út að líta á nýjasta erfingjann. Við Stína stefnum svo á að vera dugleg að skokka líkt og í fyrra og taka aftur þátt í Reykjavíkurmaraþoninu og jafnvel fleiri hlaupum. Svo verður haldið áfram að blaka með hinu hressa blakfólki á Sigló, það er flottur félagsskapur.
Svo eru ýmis verkefni sem bíða á kantinum á listasviðinu. Ég er með svona hugmyndalista þar sem ég set niður hugmyndir að verkefnum sem mig langar að takast á við. Listinn er ansi langur og vonandi nær maður að strika yfir einhver atriði þar. Ég er t.d. ákveðinn í að koma út 5. ritinu af siglfirsku gamansögunum, svo langar mig líka til að taka upp nýja geislaplötu. Það yrði þá plata tileinkuð Siglufirði, frumsamin lög við texta eftir nokkra Siglfirðinga auk minna eigin. Ég er með hugmynd að nýjum einleik sem mig langar að skrifa og setja á fjalirnar og hugmyndir að 2 – 3 ritum/bókum. Þannig að verkefnin eru næg á því sviði auk þess sem stefnt er að því að setja frjálsíþróttaæfingar aftur af stað, en hlé hefur verið á þeim hjá mér og Umf Glóa á annað ár vegna anna á hinum ýmsu sviðum.
Ég held mér leiðist ekkert þetta ár frekar en önnur!