Héldu golfmót í Ólafsfirði í lok október

Golfklúbbur Fjallabyggðar bauð upp á golfmótið Saltkjöt & baunamót GFB um síðustu helgi, eða sunnudaginn 22. október síðastliðinn. Það er ekki á hverju ári sem hægt er að halda golfmót svo seint á árinu í Ólafsfirði, en veðráttan hefur hagstæð fyrir golfið í haust í Fjallabyggð. Keppt var í punktakeppni á Skeggjabrekkuvelli og var ræst út frá öllum teigum á hádegi. Nítján spilarar skráðu sig í mótið en sautján mættu til leiks og luku keppni. Snævar Bjarki Davíðsson frá GHD fékk flesta punkta eða 21. Þrjú voru svo 20 punkta, en það voru Björg Traustadóttir, GFB, Hjörleifur Þórhallsson, GFB og Hafsteinn Þór Sæmundsson frá GFB.