Heimsfrumsýning – Erlendur kafari í ríki sjávarins

Erlendur Bogason, kafari á Akureyri, frumsýnir á Fiskideginum mikla 2014, tuttugu stuttmyndir með sögum og svipmyndum úr hafinu og af hafsbotni við Ísland. Þær eru talsettar á íslensku og hafa sömuleiðis verið framleiddar með ensku tali. Hver mynd er um þrjár mínútur að lengd. Erlendur naut stuðnings Rannsóknarsjóðs síldarútvegsins og Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum við að taka upp, vinna úr myndefninu og kynna það hér opinberlega í fyrsta sinn.

Aðstandendur frumsýningarinnar ætla í framhaldinu að opna ókeypis aðgang að öllum myndunum á vefnum www.strytan.is eftir að dagskrá Fiskidagsins mikla lýkur.
Tilgangurinn með þessari gjöf til þjóðarinnar er annars vegar að kynna nemendum í grunn- og framhaldsskólum lífríki og heillandi heim sjávarins í gegnum samskiptamiðla og hins vegar að greiða öllu áhugafólki hérlendis og erlendis leið að einstæðu fræðslu- og skemmtiefni úr íslenskri náttúru.

Heimild: www.dalvik.is