Heilbrigðisstofnun Norðurlands svarar íbúum Fjallabyggðar

Framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Norðurlands hefur sent íbúum Fjallabyggðar eftirfarandi pistil:

Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) hefur borist undirskriftalisti íbúa og bókun sveitarstjórnar Fjallabyggðar varðandi þá ákvörðun HSN að leggja niður sjúkraflutningavakt í Ólafsfirði. Stofnunin hefur skoðað þau sjónarmið sem komið hafa fram í samtölum við sveitarstjórnamenn og íbúa í Fjallabyggð varðandi umrædda ákvörðun. Ákvörðunin um að vera með tvær vaktir sjúkraflutninga á Dalvík og Fjallabyggð í stað þriggja, er tekin eftir vandlega greiningu og samráð. Auknar kröfur um menntun og þjálfun sjúkraflutningamanna gera það að verkum að nauðsynlegt er að reka færri og öflugri lið. Stofnunin mun því standa við ákvörðun sína og telur að með því verði þjónustan öflugri til lengri tíma litið.

Heilbrigðisstofnun Norðurlands kemur að uppbyggingu vettvangsliða á fjölmörgum stöðum á starfssvæðinu. Slík lið eru byggð upp í samstarfi við björgunarsveit og/eða slökkvilið viðkomandi byggðarlaga og verður til framtíðar ein styrkasta stoðin í öryggi íbúa á starfsvæði HSN. Hlutverk vettvangsliða er að koma að bráðum atburðum en ekki að flytja sjúklinga. HSN hefur áhuga á að koma að uppbyggingu slíks liðs í Ólafsfirði.

Varðandi opnunartíma heilsugæslu í Ólafsfirði þá eru þær breytingar m.a. tengdar læknamönnun yfir sumarmánuðina og til að hafa meiri samfellu í þjónustunni. Þjónusta heilsugæslunnar í Fjallabyggð er með því allra besta sem gerist á starfssvæði stofnunarinnar. Stefnt er að því að efla hana enn frekar með aukinni mönnun hjúkrunarfræðinga og ráðningu sálfræðings á starfssvæðið.