Heiðursverðlaun Garðyrkjunnar til Akureyrar

Garðyrkjuverðlaunin 2016 voru afhent í þrettánda sinn á sumardaginn fyrsta þann 21. apríl síðastliðinn við hátíðlega athöfn hjá Landbúnaðarháskóla Íslands á Reykjum. Með verðlaunaveitingunni vill Landbúnaðarháskóli Íslands heiðra þá sem staðið hafa sig vel í að vinna að framgangi garðyrkjunnar á ýmsum sviðum hennar.
Heiðursverðlaun garðyrkjunnar
Að þessu sinni hlaut Björgvin Steindórsson, skrúðgarðyrkjumeistari og forstöðumaður Lystigarðs Akureyrar, heiðursverðlaun garðyrkjunnar 2016. Björgvin Steindórsson er fæddur á jóladag árið 1954 á Akureyri. Hann varð stúdent frá MA 1974 og ákvað svo að ganga í háskóla en uppgötvaði að hann hafði ekki áhuga á því að stunda þægilega innivinnu ævina á enda. Hann dreif sig því í skrúðgarðyrkjunám Garðyrkjuskóla ríkisins og lauk því árið 1982 og varð skrúðgarðyrkjumeistari árið 1988. Árið 2005 lauk hann svo diplómanámi í garðyrkjutækni frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Björgvin hefur unnið við garðyrkjustörf hjá Akureyrarbæ nær alla sína starfsævi, fyrst sem verkstjóri hjá garðyrkjudeild bæjarins en síðar sem umsjónarmaður og verkstjóri hjá Lystigarði Akureyrar, eða allt fram til ársins 1997 þegar hann tók við sem forstöðumaður garðsins. Um 12 ára skeið rak Björgvin einnig eigin skrúðgarðyrkjuþjónustu á Akureyri þar sem hann teiknaði, skipulagði og sá um framkvæmdir á lóðum.
„Björgvin hefur ásamt starfsfólki sínu átt sinn þátt í að koma Lystigarði Akureyrar á kortið sem einu helsta aðdráttarafli bæjarins. Hann hefur haft fagmennsku að leiðarljósi í sínu ævistarfi en jafnframt notið þeirra forréttinda að fá að starfa við aðaláhugamál sitt, garðyrkju.“, segir m.a. í umsögn skólans um heiðursverðlaunahafa garðyrkjunnar.
Björgvin Steindórsson gat ekki verið viðstaddur verðlaunaafhendinguna og tók dóttir hans við verðlaununum fyrir hans hönd.

Heimild: Bændablaðið.

Mynd: Lbhi.is / Rúnar Ísak Björgvinsson.