Héðinsfjarðargöng 1. árs 2. október

Héðinsfjarðargöng voru opnuð formlega þann 2. október 2010. Göngin eru því eins árs í ár. Það má segja að þetta hafi verið algjör bylting fyrir íbúa Fjallabyggðar og næstu nágrannabyggðir.

Framkvæmdin var liður í að bæta samgöngur, auka umferðaröryggi og tengja Siglufjörð við Eyjafjarðarsvæðið og styrkja þannig byggð á svæðinu. Framkvæmdin styttir leiðina milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar úr 62 km í um 15 km miðað við leið um Lágheiði og úr 234 km í 15 km miðað við leið um Öxnadalsheiði.

Vorið 2000 var síðan samþykkt á Alþingi tillaga um gerð jarðganga á norðanverðum Tröllaskaga. Vegagerðin bauð út gerð Héðinsfjarðarganga í janúar 2006 að undangengnu forvali og bárust og bárust tilboð frá 5 verktökum. Gengið var til samninga við lægstbjóðanda, Metrostav a.s. og Háfell ehf. og var verksamningur undirritaður 20.maí 2006 í Síldarminjasafninu á Siglufirði.

Framkvæmdir á verkstað hófust Siglufjarðarmegin í síðari hluta júní 2006 við gröft á lausu efni í forskerinu. Þann 13. september var fyrsta gangasprenging á munnastáli. Fyrsta formlega sprengingin var síðan þann 30. september að viðstöddum samgönguráðherra og fjölda gesta.

Vinna við gröft í forskeringu Ólafsfjarðarmegin hófst í fyrri hluta ágúst 2006 með hreinsun á lausu efni ofan á klöpp.

Við verkið störfuðu alls um 100 starfsmenn af hálfu verktaka og þar af voru oftast um 70 á verkstað hverju sinni en hinir heima í fríi. Unnið var við gangagröftinn á vöktum allan sólahringinn.

Vegagerðin hafði umsjón með undirbúningi og hönnun ganganna. Sérstakur stýrihópur verkkaupa var skipaður fyrir þetta verk.