Haustsýning MTR hefst í dag

Haustsýning nemenda MTR hefst í dag klukkan 13:00 og hefst flutningur tónlistaratriða klukkan 13:15. Til sýnis verða verk nemenda í listum, ljósmyndun, nýsköpun, félagsfræði, forritun og fleiri námsgreinum.

Nemendur í íslenskuáfanga ortu ljóð og sýna á sýningunni. Þá verða málverk og ljósmyndir fyrirferðamiklar á sýningunni og koma sumar myndir langt að frá fjarnemum skólans sem eru staðsettir um allt land.

Starfsbrautarnemar sýna mósaik-kertastjaka og keramik-jólasveina. Félagsfræðinemar kynna rannsóknir sínar, meðal annars á birtingarmyndum kynja í kvikmyndum og teiknimyndasögum og nemendur í forritun verða með barnahorn þar sem sýndar verða teiknimyndir fyrir yngstu kynslóðina.

Sýningin verður opin til klukkan 16 í dag en verður síðan aðgengileg í skólanum fram til 21. desember.